Split mynd GHV
Þessa vikuna er hópur nemenda úr MTR og Guðbjörn Hólm Veigarsson og Inga Þórunn Waage kennarar þeirra í Króatíu að taka þátt í verkefni sem kallast „Becoming a Biomaker School“ sem er innan ramma Erasmus+. Þetta er verkefni sem hófst 2022 og er dreift yfir 5 ára tímabil. Megináherslur verkefnisins eru sjálfbær evrópsk markmið og þá sérstaklega þau sem miða að því að vernda umhverfið.Samstarfsskólarnir eru þrír; frá Króatíu, Portúgal og Spáni. Nemendur vinna saman að því að móta verkefnið í kringum brýn málefni eins og loftslagsbreytingar, græna Evrópu og þróun landsvæða.
Mikilvægt er að skólarnir sem taka þátt eru staðsettir á ólíkum svæðum því það opnar möguleikann á að vinna með fjölbreytt vistkerfi. Það gerir nemendum kleift að kanna mismunandi áhrif loftslagsbreytinga og hnattrænnar hlýnunar á viðkomandi svæði. Að auki vinna skólarnir saman að því að stuðla að vistvænni skólum sem er svo ætlað að hafa jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt. Námið er verkefnamiðað og þverfaglegt og miðar að því að auka áhuga nemenda og námsárangur auk þess að bæta umhverfi þeirra stofnana sem taka þátt.
Nemendur frá skólunum hafa þegar komið saman á Portúgal og á Íslandi og nú er komið að heimsókn í skólann V. Gimnazija Vladimir Nazor í Split í Króatíu. Ferðalagið þangað frá Íslandi var langt og strangt en nemendur mættu engu að síður galvaskir í skólann á mánudagsmorgni. Fyrstu verkefni voru að skoða skólann og kynnast skólabragnum, að kynnast samnemendunum í verkefninu í léttum leikjum og þrautum og læra nokkur algeng orð á króatísku. Á þriðjudeginum heimsóttu nemendur fallegan þjóðgarð, sáu þar margt áhugavert og fengu fræðslu um náttúru og dýralíf svæðisins.
Á miðvikudeginum var áherslan á varðveislu menningararfleifða og hvernig neysluhyggjan og alþjóðavæðingin hefur breytt umhverfinu, ýtt út eldri iðn og handverki en í staðinn hafa komið alþjóðlegar stórkeðjur sem er ekki góð þróun frá umhverfissjónarmiði. Nemendurnir frá Íslandi nefndu handverk eins og laufabrauðsgerð, lopapeysuprjón, að taka slátur, þjóðbúningagerð og fleira sem mögulega er að tapast hjá okkur og ræddi hópurinn mikilvægi þess að þjóðir varðveittu menningararfleifðir sínar.
Á fimmtudeginum unnu nemendur í blönduðum hópum við að gera kynningar um dvölina þar sem þau gerðu grein fyrir hvað þau höfðu lært af verkefninu. Nemendur flytja svo þessar kynningar á morgun, föstudag, áður en kemur að afhendingu skírteina og lokaathöfn. Að athöfn lokinni verður svo haldið í siglingu á sjóræningjaskipi. Fyrir utan dagskrá verkefnisins hafa nemendur líka haft tækifæri til að skoða sig um, kíkja á ströndina og í sjóinn, skoða fornar rústir, versla og síðast en ekki síst skoða Game of Thrones safnið en mikið af þeim þáttum var tekið upp á svæðinu. Nemendur fljúga svo aftur heim á laugardaginn en verða komin norður á sunnudagsmorgun.