Námsferð til Alicante

Fjölbreytt viðfangsefni einkenndu ferð átján nemenda, tveggja kennara og eins foreldris til Alicante á Spáni í síðustu viku. Dagskrá var þétt alla átta dagana. Nemendur greiddu ferðina sjálfir en söfnuðu einnig í ferðasjóð sem dugði fyrir ferðum með sporvögnum og strætisvögnum, nokkrum máltíðum og fleiru.

Kenbúdóæfingar, ferðalag á reiðhjóli og ýmsar strandíþróttir bar hæst á dagskránni en nemendum var einnig skipt í smærri hópa sem unnu þemaskipt ljósmyndaverkefni. Viðfangsefnin voru matur og drykkur, landslag og útsýni, götulíf, byggingar og minnismerki, gróður og garðar og götur og torg.
Hugmyndin var að fá nemendur til að horfa í kringum sig og segja frá. Um leið lærðu þeir að nota sporvagna og rata í framandi umhverfi. Þeir voru ekki lengi að átta sig á að fáir kunna ensku svo það var gott að geta brugðið spænskunni fyrir sig. Okkar fólk lærði líka að maður hoppar ekki upp á ruslatunnu til að taka ljósmynd, ekki má vera ber að ofan í sporvagni eða rútu og ekki heldur inni á söfnum og svo er ekki vel séð að tala mjög hátt - svo dæmi sé tekið.
Gist var í ráðstefnu- og háskólagistingu La Villa Universitaria í San Vicentehverfinu fyrir utan Alicanteborg. Hópurinn var þar í hálfu fæði en var á ferðinni alla daga frá snemma morguns til síðla kvölds.  Þétt dagskrá var í ferðinni sem var blanda af hreysti og menningu. Nemendur fóru í 25 km hjólaferð um Alicante og nágrenni, fengu kynningu á íþróttinni kenbúdó og skoðuðu íþróttamannvirki háskólans í Alicante. Synt var í “los Baños de la Reina” – drottningarböðunum, sem eru ker frá fornri tíð, höggvin í klettana við ströndina. Einnig var farið í fornleifasafn auk safns um vatn þar sem sýndir voru 800.000 lítra vatnstankar sem notaðir voru til að safna regnvatni. Gengið var upp að kastalanum Santa Bárbara í 800 metra hæð og nemendur skoðuðu sig um og nutu útsýnisins út yfir Alicanteflóann og inn til sveita. Á ströndinni við Los Arenales voru æfingar á brimbrettum, reynt “paddlesurf” og farið langt út á sjó á þriggja manna kajökum. Leiðsögumenn og kennarar í hjólaferðinni, í kenbúdó og í siglingaskólanum fóru afar jákvæðum orðum um okkar orkumikla, óhrædda og jákvæða nemendahóp. Á facebooksíðum þeirra er sagt frá heimsókn okkar og fram kemur að þeir nutu þess að vinna með okkur og vilja gjarnan fá svona hóp aftur. 
Myndir