Nemendur nota hverja stund sem gefst í ferðinni til að sinna heimanáminu.
Ljósmynd: KB.
Átta manna hópur frá MTR en nú í námsferð í Příbram í Bæheimi í Tékklandi að vinna að Erasmus verkefninu „U2 have a voice” eða „Þú hefur líka rödd“ en markmið þess er fræðsla um mannréttindi og ábyrg þátttaka í lýðræðisþjóðfélagi.
Hópinn skipa sex nemendur og tveir kennarar og í Příbram sameinast þau nemendum frá Grikklandi, Lettlandi og Tékknesku heimafólki, alls um 35 manns.
Í gær var m.a. hópavinna um þjóðir sem ekki búa við lýðræði og kynning á DofE sem er valdeflingar verkefni fyrir ungt fólk. Í dag er ferðinni heitið til Prag þar sem hópurinn hittir fulltrúa Tékkneska þingsins. Þá verður í skoðunarferð um þessa sögufrægu borg og farið í heimsókn í kastala. Einnig verður farið í keilu í Prag áður en haldið verður til baka til Příbram.
Þess má geta að leiðsögumaðurinn hópsins um Prag var heimilislaus maður sem tekur þátt í verkefni sem háskólanemar hafa hrint af stað til að veita heimilislausum atvinnutækifæri. Þannig fengu þau að sjá annað sjónarhorn á borgina en með hefðbundinni túristaleiðsögn og um leið að heyra sögu heimilislausa leiðsögumannsins.
Ferðalagið út var langt og strembið. Ferðast var til Reykjavíkur með strætó og gist eina nótt. Síðan flogið til Manchester, þaðan til Prag og ferðast síðasta spölinn með lest til Příbram. Námsferðir sem þessar taka heilmikið á. Það er stíf dagskrá og margt að sjá og skoða. Nemendur MTR hafa helst kvartað undan að hafa ekki tíma til fyrir hið hefðbundna nám sitt en auðvitað þarf að sinna því samhliða námsferðinni.
Ferðalangarnir halda heimleiðis um helgina og er væntanlegir heim um miðnætti á sunnudag.