MTR gott veganesti.

Útskrift vorið 2013
Útskrift vorið 2013
Óformleg könnun bendir til að þeir sem útskrifast hafa frá MTR séu ánægðir með námið og telji að það nýtist vel. Námsfyrirkomulag, fjölbreytni og persónuleg samskipti þóttu kostir við skólann en gallar meðal annars að hægt væri að komast í gegn á ódýran hátt og félagslíf væri lítið. Haft var samband við fimm einstaklinga, tveir eru í háskólanámi, tveir ætla í nám en einn er óákveðinn.

Óformleg könnun bendir til að þeir sem útskrifast hafa frá MTR séu ánægðir með námið og telji að það nýtist vel. Námsfyrirkomulag, fjölbreytni og persónuleg samskipti þóttu kostir við skólann en gallar meðal annars að hægt væri að komast í gegn á ódýran hátt og félagslíf væri lítið. Haft var samband við fimm einstaklinga, tveir eru í háskólanámi, tveir ætla í nám en einn er óákveðinn.

Þórdís Arna Jakobsdóttir segir að námið í MTR hafi verið krefjandi og skemmtilegt, segja megi að hún hafi lært að læra í skólanum. Kostir skólans hafi verið góð, hnitmiðuð og fjölbreytt kennsla en helsti gallinn lítið félagslíf. Þórdís er nemandi í Tannlæknadeild Háskóla Íslands og stefnir að því að verða tannlæknir.

Sigurður Björn Gunnarsson segir kostinn við MTR að skólinn sé fámennur og náið samband bæði milli nemenda og milli nemenda og kennara. Gallinn sé að þegar komi að verkefnum séu sumir “free riders” - lifi bara á verkefnum annarra nemenda og komist í gegn um skólann án þess að leggja mikið á sig. Sigurður segir að fyrirkomulagið í skólanum hafi hentað sér vel og þjálfunin hjálpi sér núna en hann stundar nám í nútímafræði við Háskólann á Akureyri.

Sandra Finnsdóttir segir að skólinn hafi reynst sér vel, námið hafi verið fjölbreytt og skapandi. Hún segir að það hafi verið gott að geta stundum fengið að taka eigin ákvarðanir og skapa eigin stíl. Sandra ætlar að halda áfram námi en hefur ekki ákveðið hvað læra skuli sökum valkvíða. Hún er starfsmaður hjá Premium, rekur litla búð með vinkonu sinni og starfar í Siglufjarðarkirkju.

Brynja Sigurðardóttir og Rebekka Rún Sævarsdóttir voru sammála um að símat hentaði þeim mun betur en að lokapróf. Rebekka taldi kost við skólann hvað hann er lítill og persónuleg samskipti auðveld. Brynja hefði viljað meira verklegt nám. Hún hefur ekki ákveðið hvort hún heldur áfram námi en vinnur núna á leikskóla í Reykjavík. Rebekka er í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík en stefnir að því að fara í Lögregluskólann.

Texti Kristín Ágústa Harðardóttir