Útskriftarnemar mynd GK
Sextánda brautskráning frá Menntaskólanum á Tröllaskaga fór fram í dag. Fjörutíu og fimm nemendur brautskráðust og hafa þeir aldrei verið fleiri. Mikil fjölbreytni einkenndi hópinn, þarna eru einstaklingar sem eiga uppruna í mörgum þjóðríkjum og eru á mismunandi aldri. Tuttugu brautskráðust eftir tveggja ára nám á fisktæknibraut og er þetta í fyrsta sinn sem nemendur ljúka námi af henni. Svanfríður Inga Jónasdóttir, verkefnisstjóri hefur haldið utan um fisktækninámið á Dalvík af röggsemi og skörungsskap. Sjö nemendur útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut, sex af íþróttabraut, þrír af náttúruvísindabraut, þrír af listabraut, þrír luku viðbót við starfsnám til stúdentsprófs og þrír útskrifuðust af starfsbraut.
Lára Stefánsdóttir, skólameistari ræddi breytingar í ávarpi sínu við brautskráninguna. Hún sagði að örlög okkar byggju í þeim ákvörðunum sem við tækjum og líka í viðbrögðum okkar við ákvörðunum sem aðrir tækju og við fengjum engu um breytt. Þá reyndi á hvernig fólk nálgaðist breytingar og aðlagaðist þeim. Hún rifjaði upp ástandið á Siglufirði þegar staðurinn fékk kaupstaðaréttindi, 20. maí 1918. Þá var svo kalt og hart á dalnum að loka varð skólanum. Samt létu menn sig dreyma um að eftir 100 ár yrði hægt að ferðast með járnbraut frá Reykjavík á fjórum klukkustundum og fjörðurinn yrði allur eitt skipalægi. Lára hvatti nemendur til að nýta tækifærin sem fælust í breytingum, hvort sem þeir hefðu tekið ákvarðanir um breytingarnar eða ekki.
Haukur Orri Kristjánsson flutti ávarp nýstúdents. Hann lauk námi á þremur árum og sagði að tíminn hefði flogið. Hann rifjaði upp minningar frá þessum tíma, einkum úr ferðalögum til útlanda í fjölþjóðlegum verkefnum og sagðist hafa lært álíka mikið í þessum ferðum eins og á heilum önnum í hinu hefðbundna námi. Haukur Orri sagðist vera stoltur af því að hafa verið nemandi í Menntaskólanum á Tröllaskaga, þar ríkti sátt milli nemenda og kennara og hann vonaði að því góða og flotta starfi sem unnið væri í skólanum yrði haldið áfram.
Tvö tónlistaratriði skreyttu útskriftarathöfnina. Zsuzsanna Bitay og Ave Kara Sillaots léku Mundu eftir draunmnum eftir Gabriel Fauré á fiðlu og píanó og nýstúdentinn Haukur Orri Kristjánsson og Lísebet Hauksdóttir sungu Íslenskt ástarljóð eftir Sigfús Halldórsson við ljóð Vilhjálms frá Skáholti. Guito Thomas lék undir á gítar. Myndir