Menningarferð
Nemendur starfsbrautar gerðu sér dagamun í vikunni og brugðu sér í menningarferð til Siglufjarðar. Á Siglufirði er blómlegt menningarlíf og margt að sjá. Til að fá smá nasasjón af því sem þar er í gangi var ákveðið að fara á nokkra staði þó stoppað væri stutt á hverjum þeirra.
Nemendur starfsbrautar gerðu sér dagamun í vikunni og brugðu sér í menningarferð til Siglufjarðar. Á Siglufirði er blómlegt menningarlíf og margt að sjá. Til að fá smá nasasjón af því sem þar er í gangi var ákveðið að fara á nokkra staði þó stoppað væri stutt á hverjum þeirra.
Fyrsti viðkomustaður var Alþýðuhúsið, þar sem Aðalheiður Eysteinsdóttir listamaður býr, er með vinnustofu og sýningarrými, allt í senn. Sagði Aðalheiður frá vinnu sinni og verkum og nemendur skoðuðu hin fjölbreyttu verk hennar. Spurðu þeir út í eitt og annað sem tengdist verkunum og vinnustofunni, sem þeim þótti ákaflega spennandi staður. Næst lá leiðin í Ljóðasetur Íslands þar sem nemendur fengu kynningu á starfsemi setursins sem og fræðslu um íslenska ljóðlist. Þótti þeim sérstaklega áhugvert að heyra af áhrifum okkar gamla kveðskapar á erlenda listamenn t.d. rithöfundinn J.R.R.Tolkien. Hefði sagan Hobbit ekki orðið til ef þessi kveðskapur og fornsögurnar hefðu ekki verið skráðar og varðveittar á Íslandi? Ja, hver veit?
En ekki var dvalið lengi við fortíðina því nú var komið að því að líta inn í hið nýja og glæsilega Sigló Hótel. Þar skoðuðu nemendur sig aðeins um, áttu gott spjall í setustofunni og fylgdust með lífinu við höfnina. Þá var komið að tónleikum í Bátahúsi Síldarminjasafnsins þar sem erlendir listamenn úr Listhúsi Fjallabyggðar buðu upp á fjölbreytta tónlist. Þótti nemendum áhugavert að heyra þar ýmis framandi hljóð og tónlist sem þeir heyra ekki dags daglega. Heimsókninni lauk svo í Aðalbakaríinu þar sem nemendur nutu góðra veitinga í hjarta bæjarins og ræddu um upplifun dagsins sem og lífið og tilveruna. Myndir