Menningaratburður í MTR

Sýningin BINNI með myndum frá Ólafsfirði verður opnuð í skólanum á morgun. Eitt hundrað ár eru frá fæðingu Binna, Brynjólfs Sveinssonar kaupmanns og stendur fjölskylda hans fyrir sýningu á myndum hans og kvikmyndum. Nokkrar myndir verða sýndar á Kaffi Klöru en þar var vinnustaður Binna á dögum Pósts og síma.

Sýningin BINNI með myndum frá Ólafsfirði verður opnuð í skólanum á morgun. Eitt hundrað ár eru frá fæðingu Binna, Brynjólfs Sveinssonar kaupmanns og stendur fjölskylda hans fyrir sýningu á myndum hans og kvikmyndum. Nokkrar myndir verða sýndar á Kaffi Klöru en þar var vinnustaður Binna á dögum Pósts og síma.

Þetta er í fyrsta sinn sem úrval mynda Binna er sýnt opinberlega. Einstakar myndir hafa þó verið lánaðar víða og birst á ýmsum stöðum en ekki alltaf eignaðar honum. Fyrstu ljósmyndirnar tók hann 1930 og var með fyrstu mönnum til að ljósmynda í Ólafsfirði. Hann tók einnig kvikmyndir frá miðjum fimmta áratugnum og var fyrsti myndatökumaður Ríkisútvarps-sjónvarps í Ólafsfirði. Brynjólfur var með afbrigðum hæglátur, dulur og orðfár, en fylginn sér og lét mjög til sín taka í félagsmálum bæjarins. Hann var frumkvöðull og stóð að mörgum framfaramálum í Ólafsfirði.

Hægt er að skoða sögu Ólafsfjarðar á árunum 1930-1980 á sýningunni. Á elstu myndunum eru engin hafnarmannvirki og óbyggð mörg svæði þar sem nú hafa staðið hús í áratugi. Athyglisverðar myndir eru af grindhvalavöðu sem rekin var á land árið 1933. Fjölmargar myndir eru af fólki, við leik og störf, bæði fullorðnum og börnum, sem nú eru rígfullorðið fólk.