mynd Ida Semey
Viðfangsefni nemenda í áfanganum Matur og menning í morgun voru ættuð frá Spáni. Þetta er í þriðja sinn sem áfanginn er kenndur. Í fyrsta sinn var nokkuð um að nemendur lýstu efasemdum um framandi rétti en athugasemdir á borð við „oj-bara“ heyrast ekki lengur segir kennarinn, Ida Semey.
Nemendur skipta sér í hópa og eru þrír saman um hvern rétt. Í morgun voru spænskir smáréttir, tapas, á dagskrá. Gerðir voru fylltir hálfmánar (impananas), eggjakaka með kartöflum og lauk (tortilla) og litlar kjötbollur. Með þessu var hvítlauksbrauð og salzasósa sem einnig var lagað á staðnum. Nemendur eru áhugasamir og finnst gaman að laga þessa rétti. Eftir hvern tíma er valinn ákveðinn réttur sem þeir ætla að framreiða á sérstakri sýningu í lok annar. Nemendur snæða framleiðslu sína saman í lok tímans og ef það er afgangur njóta kennararnir hans og þykir ekki slæmt.
Í dag kom fram ósk um að læra að laga japanska réttinn sushi. Kennarinn stefnir að því að verða við þessari ósk og jafnvel fá einhvern sérhæfðan sushimeistara til aðstoðar við kennsluna. Hugsanlegt væri einnig að fara í vettvangsferð til Akureyrar til að kynnast hvernig matreiðslumeistarar þar laga og framreiða sushi. Myndir