Matreiðsla mynd ÞH
Á starfsbraut skólans eru kenndir margir áhugaverðir áfangar í hinum ýmsu fögum. Meðal annars eru nokkrir áfangar sem bera heitið Tilveran og hafa þeir hver sitt undirheiti. Í þessum áföngum er fengist við ýmis verkefni hins daglega lífs. Undirheiti áfangans í Tilveru á þessari önn er matreiðsla og næring og eins og nafnið gefur til kynna fá nemendur tilsögn í grunnþáttum matreiðslu og fræðast um mikilvægi góðrar næringar. Einnig er farið í notkun á helstu tækjum og smááhöldum í eldhúsi, meðferð hráefna, vinnuskipulag og mikilvægi hreinlætis auk þess sem nemendur fá þjálfun í að leggja á borð og ganga frá eftir eldamennsku og bakstur.
Áfanginn er bæði verklegur og bóklegur. Í fyrstu vikunni ræddu nemendur hvað þeir vildu matreiða og baka á önninni og fengu fræðslu um mikilvægi fjölbreyttrar fæðu. Sérstaklega var fjallað um ávexti og grænmeti sem gefa okkur mikið af trefjum, vítamínum og öðrum fjörefnum. Í dag var svo komið að verklega þættinum. Nemendur byrjuðu á því að fara í verslunarferð með kennara sínum og kaupa inn gott úrval ávaxta og síðan að skera niður og raða á diska eftir kúnstarinnar reglum. Nemendur starfsbrautar smökkuðu svo hinar ýmsu tegundir og buðu einnig öðrum nemendum og starfsfólki skólans að bragða á við mikla ánægju viðstaddra. Kennarar áfangans á þessari önn eru Guðrún Þorvaldsdóttir og Þórarinn Hannesson. Myndir