Hópmynd
Einn af nyjum áföngum þessarar annar kallast Erlent verkefni, Ísland, Danmörk, fjölmenning. Í áfanganum er fjallað um sögulegt samband Íslands og Danmerkur sem og alþjóðasamvinnu. Þungamiðja áfangans er ferð til Kaupmannahafnar sem farin var nú í miðannarvikunni, er hún styrkt af Erasmus+. Þangað fóru 13 nemendur og þrír kennarar. Fyrri hluta annarinnar var ferðin undirbúin og seinni hluti annarinnar fer í að vinna úr þeirri vitneskju og reynslu sem nemendur öðluðust í ferðinni.
Ferðin hófst með rútuferð að norðan sl. laugardagskvöld, var brunað beint suður á Keflavíkurflugvöll og flogið af stað að morgni sunnudags. Sunnudagurinn fór svo í að koma sér fyrir á hótelinu, kanna næsta nágrenni og hvílast. Dagskráin hófst síðan að morgni mánudags með sérlega fróðlegri og skemmtilegri gönguferð með leiðsögn Hrannars Hólm um slóðir Íslendinga í gömlu Kaupmannahöfn. Sú gönguferð endaði í Jónshúsi þar sem hópurinn fékk kynningu, frá forstöðukonu hússins Höllu Benediktsdóttur, á starfseminni í húsinu og fræðslu um Jón Sigurðsson og Ingibjörgu konu hans, auk þess að skoða sig um í íbúð þeirra hjóna í húsinu. Eftir hádegi var svo farið í miðstöð Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn og var sú heimsókn mjög áhugaverð. Á þriðjudegi og miðvikudegi var unnið með bekk í samstarfsskóla MTR í Kaupmannahöfn, KVUC, þar sem ýmsar áskoranir í loftslagsmálum voru til skoðunar. Þessa daga var einnig skoðuð víkingasýning í Þjóðminjasafni Dana og gömul íslensk handrit í stofnun Árna Magnússonar í Háskólanum í Kaupmannahöfn. Þar má segja að hápunktur heimsóknarinnar hafi verið því það mátti heyra saumnál detta þegar starfsmaður stofnunarinnar dró fram handrit að Njálu frá 14.öld ritað á skinn. Fimmtudagurinn var svo nýttur til að skoða ýmislegt markvert í borginni eins og t.d. vaktaskiptin við Amalíuborg, litlu hafmeyjuna og Nýhöfn og um kvöldið var farið í Tívolí þar sem gleðin var við völd.
Óhætt er að segja að ferðin hafi lukkast vel. Nemendur voru mjög áhugasamir, urðu þeir margs vísari um tengsl Íslands og Danmerkur og af hverju þau eru svo sterk sem raun ber vitni. Samstarf við danska nemendur var mjög gott og er farið að huga að frekara samstarfi skólanna, jafnvel að þeir dönsku heimsæki Ísland. Myndir