Nemendaráð mynd GK
Á dögunum var óskað eftir framboðum í nemendaráð skólans, er það nú fullskipað og hefur þegar tekið til starfa að halda og skipuleggja fyrstu viðburði vetrarins. Undanfarin ár hefur ráðið verið skipað 6 fulltrúum en að þessu sinni var ákveðið að þeir yrðu 7 þar sem sitjandi formaður, Lárus Ingi Baldursson, útskrifast um áramót. Aðrir í ráðinu frá síðustu önn eru Björn Ægir Auðunsson, Elísabet Ásgerður Heimisdóttir og Erna Magnea Elísa Jökulsdóttir og í hópinn bætast nýnemarnir Hanna Valdís Hólmarsdóttir, Ingólfur Gylfi Guðjónsson og Víkingur Ólfjörð Daníelsson. Sem fyrr var hugað sérstaklega að kynjahlutfalli við val í ráðið.
Undanfarin ár hafa nemendaráð skólans staðið fyrir fjölbreyttu félagsstarfi þar sem haldnir eru ýmsir minni viðburðir til að krydda daglegt líf í skólanum og einnig stærri viðburðir á kvöldin. Nýtt nemendaráð mun halda áfram á sömu braut og er t.d. þegar byrjað með hina vinsælu þemadaga á miðvikudögum þar sem nemendur mæta í skólann klæddir eftir mismunandi þemum og starfsfólkið tekur einnig virkan þátt. Annað kvöld verður svo spilakvöld í skólanum á vegum nemendaráðs þar sem spiluð verða hin ýmsu borðspil auk þess sem farið verður í spurningakeppni og boðið upp á veitingar. Á næstunni mun svo nemendaráð m.a. standa fyrir kósýkvöldi, þar sem nemendur horfa saman á kvikmynd í skólanum og hafa það notalegt, og lan-kvöldi, þar sem nemendur koma með tölvur sínar og spila tölvuleiki.
Að skipuleggja og halda nýnemadaginn er eitt af viðamestu verkefnum nemendaráðs, sá dagur verður á næstunni og er undirbúningur hafinn.Tveir stærstu viðburðirnir í félagslífinu eru í lok hvorrar annar, jólakvöld í byrjun desember og svo árshátíð að vori, er mikið í þá lagt og hefur þátttaka verið mjög góð síðustu ár. Nemendaráði til halds og trausts við skipulag allra þessara viðburða er Hólmar Hákon Óðinsson, en rík áhersla er lögð á frumkvæði nemendanna sjálfra við hugmyndavinnu og framkvæmd.