Mynd KAG
Á miðri önn er skólastarf brotið upp, kennarar sinna námsmati og staðnemar sitja tveggja eininga áfanga, fjarnemum stendur það einnig til boða ef þeir hafa tök á. Leitast er við að hafa þessa áfanga fjölbreytta og þykir nemendum ekki verra ef hreyfing kemur við sögu. Að þessu sinni er boðið upp á áfanga sem kallast Heilsa og markþjálfun og sjá þær nöfnur Sólveig Anna Brynjudóttir, einkaþjálfari, og Sólveig Helgadóttir, markþjálfi, um kennslu auk þess sem Snjólaug Kristinsdóttir kynnir nemendum Tabata yoga og Diljá Helgadóttir yin yoga.
Markmið áfangans er að efla og styrkja vitund þátttakenda á alhliða heilsusamlegu líferni og gera sér grein fyrir eigin ábyrgð í þeim efnum. Áfanganum er skipt í fyrirlestra og verklegar æfingar og hafa nemendur verið mjög áhugasamir og tekið virkan þátt. Vel var tekið á því í crossfit, útivera hefur verið stunduð af kappi og svo slakað á í sundi. Nemendur hafa einnig skoðað sína styrkleika, lært hvernig á að setja sér markmið og hvernig á að vinna að þeim auk þess sem mataræði hefur verið skoðað. Myndir