Nærverur mynd TH
Nemendahópur í máladeild IISS Leonardo Da Vinci - Piazza Armerina menntaskólans á Sikiley hefur að undanförnu notað nærverur í MTR til að heimsækja nemendahóp hér í skólanum. Báðir hópar læra ensku. MTR-nemar eru í áfanganum ENSK2LM05 – enska, menning, tjáning og lestur.
Hörður Ingi Kristjánsson, nemandi á annarri önn, segir að samskiptin hafi verið pínulítið vandræðaleg í byrjun en svo þegar fólk hafi byrjað að tala þá hafi þetta ekki verið neitt mál. Þetta sé mjög góður hluti af enskunáminu, að æfa framburð með því að tala við útlendinga. Hann segir að í sikileyska skólanum sé bekkjarkerfi og hópurinn eigi sína stofu. Það séu ekki vinnutímar hjá þeim eins og í MTR og svo sé kynjaskipt í bekki, þetta sé stelpubekkur sem MTR-hópurinn spjalli við. Búið sé að sýna þeim skólann, meðal annars tónlistarstofuna og myndlistarstofuna. Þar stóð svo vel á að Bergþór Morthens var að kenna sínum nemendum í gegn um nærveru frá Svíþjóð og sikileysku krakkarnir „hittu“ hann eins og myndin sem fylgir fréttinni sýnir.
Einu tengsl þessarra tveggja nemendahópa eru að enskukennararnir þeirra Tryggvi Hrólfsson og Anthony M. La Pusata þekkjast síðan þeir voru saman á Erasmus+ námskeiði um vendikennslu á Spáni árið 2017.