Nemendur skoða verk Sigurðar Árna mynd BM
Hópur nemenda af listabraut og starfsbraut heimsóttu hið glæsilega nýuppgerða Listasafn Akureyrar. Hlynur Hallson safnstjóri tók á móti hópnum og kynnti nemendum sögu hússins allt frá ýmissi iðnaðarstarfssemi sem var þar í upphafi og fram til stöðunnar í dag. Því næst var skoðuð sýning Magnúsar Helgasonar og Hjördísar Frímann í safnfræðslurýminu. Á efstu hæðinni sem er ein helsta viðbótin við safnið voru sýningar Aðalheiðar Eysteinsdóttur og Sigurðar Árna Sigurðssonar. Áhersla var lögð á að sýna norðlenska listamenn við enduropnun safnsins og kom það því í hlut Aðalheiðar sem er Siglfirðingur og Sigurðar Árna sem er Akureyringur að vígja þessi glæsilegu salakynni. Því næst var skoðuð sýning úr safneign, portrett sýning frá Listasafni ASÍ og fatahönnun Anitu Hirlekar í Ketilhúsinu. Nemendur nutu sín svo í haustblíðunni á Akureyri áður en haldið var til baka.