Kristján Jóhannsson mynd GK
Ný sýning hefur nú verið sett upp í sal skólans. Er þar um að ræða upprunalegar myndir af nokkrum af þeim bókakápum sem myndlistarmaðurinn Kristján Jóhannsson vann á árunum 1985 til 1992 áður en tölvutæknin kom til sögunnar og leysti penslana af hólmi í þeirri grein. Myndirnar eru unnar með gvasslitum og akrýllitum.
Kristján er frá Siglufirði, fæddur 1949. Hann stundaði nám við Myndlista og handíðaskóla Íslands árin 1969-1974 og útskrifaðist frá kennaradeild skólans. Hann starfaði við kennslu næstu áratugina. Fyrst við Garðaskóla í Garðabæ árin 1974 - 1982, síðan Myndlistaskóla Akureyrar 1982 - 2006 og endaði starfsferilinn á heimaslóðum í Grunnskóla Siglufjarðar árin 2006 - 2017. Auk þess var hann gestakennari við Kunstskolen í Nuuk á Grænlandi árið 1999 og vann að verkefni í Bröttuhlíð á Suður-Grænlandi í tengslum við 1000 ára afmæli landafunda Leifs Heppna í Ameríku.
Meðfram kennslunni starfaði Kristján við það í áraraðir að myndskreyta bókakápur, áður en
tölvuvæðingin tók yfir. Einnig fékkst hann við leiktjaldamálun og leikmunagerð fyrir Leikfélag
Akureyrar og Leikfélag Reykjavíkur og vann leikmynd fyrir Íslenska Dansflokkinn. Verk hans hafa verið á samsýningum og þess má einnig geta að hann situr í stjórn Herhúsafélagsins, sem hefur rekið gestavinnustofu fyrir listamenn í mörg ár á Siglufirði.
Sýningin er opin á opnunartíma skólans og er öllum velkomið að líta inn og skoða.