Ljósm. Ida Semey.
Það var ánægður og sólbakaður hópur nemenda og kennara sem komu heim úr vikulangri námsferð til Kanaríeyja um síðustu helgi. Okkar fólk var til mikils sóma; þau voru áhugasöm, athugul og mjög viljug að taka þátt í öllu sem gert var í ferðinni, að sögn kennarana. Verkefnið er styrkt af Erasmus+.
Þetta var síðasta ferðin í verkefninu Let’s eat culture sem staðið hefur yfir síðustu tvær annir. Þetta er samstarfsverkefni með tveimur evrópskum skólum; IES Tías á Lanzarote á Kanaríeyjum og IISS Patini Liberatore í Castel di Sangro á Ítalíu. Verkefnið snýst um matarhefðir á mismunandi svæðum en einnig um sjálfbærni og umhverfisvitund.
Þessi heimsókn til Lanzarote snerist að miklu leyti um sjálfbærni. Það var lítið staldrað við í skólastofu heldur ferðast þvers og kruss um eyjuna og margt áhugavert bar fyrir augu. Margt í náttúru Lanzarote á sér hliðstæðu á Íslandi enda hvort tveggja eldfjallaeyjur. Eyjaskeggjar framleiða sjávarsalt í tjörnum sem hraunið hefur myndað þegar það rann til sjávar. Áður fyrr var saltið flutt til meginlandsins en í dag er það notað á veitingahúsum á eyjunum. Það er reyndar einkennandi fyrir Lanzarote að eyjaskeggjar eru í auknum mæli að hverfa til gamalla tíma og nýja auðlindir eyjunnar heima fyrir. Dæmi um það er þegar ferðamannaiðnaðurinn hrundi í heimsfaraldrinum með tilheyrandi atvinnuleysi og tekjumissi heimilanna. Þá voru settir á stofn félagslegir matjurtagarðar þar sem íbúarnir gátu ræktað grænmeti til matar og jafnvel haft vöruskipti á heimaræktuðu grænmeti og eggjum, kjöti eða fiski sem aðrir höfðu völ á að rækta eða veiða eins og gert var áður fyrr.
Allt þetta var lærdómsríkt fyrir okkar nemendur að kynnast og ekki síst að þau bjuggu á heimilum jafnaldra sinna á Lanzarote og fengu því að kynnast menningu sem ferðafólk á Kanaríeyjum fá aldrei að sjá.
Myndasafn úr námsferðinni.