Lásum mest

Lestrarhestar mynd GK
Lestrarhestar mynd GK

Starfsmenn Menntaskólans á Tröllaskaga unnu sinn flokk í vinnustaðakeppni lestrarátaksins „Allir lesa“. Hópurinn var í miðflokknum, þar sem voru 18 lið með 10-29 liðsmenn. Tólf starfsmenn MTR voru í liðinu, sem er um helmingur starfsmanna skólans. Á þessi góða frammistaða sinn þátt í að Fjallabyggð endaði  í öðru sæti í keppni sveitarfélaga, það voru aðeins Strandamenn sem lásu meira.

Lestrarátakið stóð frá 27. janúar til 19. febrúar og las lið MTR samtals í 43.845 mínútur á þessu tímabili. Mest las Edda Rún Aradóttir 6240 mínútur og næst henni kom Edda Björk Jónsdóttir með 6150 mínútur. Snorra hefði væntanlega líkað þetta.

Leslisti starfsmanna er afar fjölbreyttur og dálítið um hljóðbækur enda margir sem eyða talsverðum tíma í ferðalög til og frá vinnu. Þar er að finna fræðibækur á borð við Foundations of Educational Technology: Integrative Approach and Interdisciplinary Perspectives, Lost Persons Behavior (um hegðun týndra), Hvað skal gera við of miklar áhyggjur? (bók um kvíðin börn) og Breyttur heimur eftir Jón Orm Halldórsson. Eitthvað var lesið af námsbókum, svo sem Hugskot og Sálfræði daglegs lífs. Talsvert var lesið af fagurbókmenntum, Ör, Skegg Raspútíns, Hestvík, Fyrir allra augum og margar fleiri bækur. Einhverjir reyfarar fengu athygli, Blómið, Drungi og Petsamo til dæmis. Þá renndi Þórarinn Hannesson í gegn um nokkrar ljóðabækur, meðal annars uppáhaldsbók sína, Þorpið eftir Jón úr Vör. Svo er gaman að segja frá því að þrjár af ljóðabókum Þórarins voru inni á topp 15 yfir mest lesnu ljóðabækur í keppninni.