Lára í beinni, mynd GK
í gær tók Menntaskólinn á Tröllaskaga þátt í kynningum á „Beyond borders“ í Eindhoven í Hollandi. Viðburðurinn var rafrænn og skipulagður af Brainport Development sem er klasi samstarfsaðila atvinnulífs og skóla. Við erum að sækja um Erasmus+ verkefni með Brabant Collage í Hollandi sem er partur af þessum klasa. Þema viðburðarins var „Hnattrænt samstarf, íbúar jarðar og tungumálakunnátta“. í Erasmus+ umsókninni sem ber yfirheitið „Menntun, heildræn nálgun náms og kennslu í stafrænum heimi“ eru auk okkar og Hollendinganna skólar frá Portúgal og Spáni. Kynningin fór fram í gegnum Beam nærverurnar og var varpað frá þeim inn í rafrænt ráðstefnukerfi þar sem allt að 300 manns voru að fylgjast með úti í Hollandi. Skólameistari Lára Stefánsdóttir og Ida Semey kynntu. Hollendingarnir stýrðu nærverunni í skoðunarferð um skólann og fjallað var um sögu skólans, markmið, námsframboð, kennslu og námsaðferðir sem einkenna Menntaskólann á Tröllaskaga og eru hornsteinn Erasmus umsóknarinnar.