Marín og Rebekka mynd GK
Kynjamerkingar á salernum nemenda í MTR voru fjarlægðar í morgun og salernin eru orðin kynhlutlaus. Það voru Rebekka Ellen Daðadóttir og Marín Líf Gautadóttir í nemendaráði skólans sem fjarlægðu síðustu skiltin, sem á stóð „WC STÚLKUR“ og „DRENGIR“. Salerni kennara hafa aldrei verið kyngreind. Rebekka og Marín Líf segja að nútíminn sé bara þannig að það eigi allir að geta valið hvaða salerni þeir noti. Breytingin auðveldi lífið fyrir þá sem ekki eru vissir um kyn sitt. Þær stöllur sátu þing samtaka nemenda í framhaldsskólum um helgina og fengu þar ýmsar góðar hugmyndir. Þær fóru á fund Láru Stefánsdóttur skólameistara í gær og fóru meðal annars fram á kynhlutlaus salerni og tíðavörur, svo sem bindi og tappa. Rebekka segir að meistari hafi tekið mjög vel í málið, í skólanum sé nútímalegt starf og allir opnir fyrir því að hugmyndir nemenda verði að veruleika. Þær séu stoltar að geta tilkynnt um kynhlutlaus salerni og tíðavörur fyrir alla kvenmenn skólans. Myndir