Karólína Baldvinsdóttir mynd SMH
Starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga býr yfir ýmsum hæfileikum og er óhætt að segja að einkunnarorð skólans, Frumkvæði - Sköpun - Áræði, gildi ekki aðeins í starfi þeirra í skólanum heldur einnig í ýmsum verkefnum sem þau taka sér fyrir hendur utan hans. Í starfsmannahópnum er m.a. starfandi myndlistar- og tónlistarfólk, jógakennari, ljósmyndarar, skíðakennarar, íþróttaþjálfarar og ljóðskáld, svo eitthvað sé nefnt.
Einn af hinum kraftmiklu kennurum skólans er Karólína Baldvinsdóttir, sem lauk námi í fagurlistum frá Myndlistaskólanum á Akureyri og hjúkrun og kennsluréttindum frá Háskólanum á Akureyri. Hún hefur komið að ýmsum skapandi verkefnum á Akureyri síðustu ár og m.a. verið formaður Myndlistafélagsins og meðlimur í Kaktus, sem er samfélag ungra listamanna á Akureyri og hefur staðið fyrir ýmiskonar menningarviðburðum í Listagilinu.
Nýjasta verkefni Karólínu er Samlagið; sköpunarverkstæði, sem haldið er innan Gilfélagsins, í samstarfi við ýmsa myndlistarmenn, Myndlistarfélagið og Listasafnið á Akureyri. Um er að ræða um þriggja mánaða námskeið þar sem áherslan er á skapandi hugsun og framkvæmd og framsetningu verka. Fyrstu námskeiðin voru sl. haust fyrir aldursflokkana 6 - 10 ára og 11 - 16 ára og enduðu þau með sýningu í Mjólkurbúðinni í byrjun desember. Vornámskeiðin hefjast í lok janúar og þar verður Karólína í hópi listafólks sem segir börnunum til. Einnig eru uppi áform um að bjóða upp á námskeið fyrir fullorðna.