Kolbrún Helga Gunnlaugsdóttir er frá Siglufirði. Hún útskrifaðist af félags- og hugvísindabraut MTR að lokinn haustönn 2015. Í framhaldi af því fór hún í sálfræði í Háskólanum á Akureyri og útskrifaðist með B.A. gráðu árið 2019. Kolbrún Helga býr í dag á Akureyri og starfar sem fagaðili í Skógarlundi, sem er miðstöð virkni og hæfingar fyrir fullorðið fólk með fötlun. Við spurðum Kolbrúnu hvernig námið í MTR hafi undirbúið hana fyrir háskólanám og hvað sé eftirminnilegast frá skólagöngunni.
Mér fannst námið í MTR undirbúa mig vel undir háskólann að því leyti að ég lærði að læra jafnt og þétt yfir alla önnina, og var þá betur undirbúin fyrir lokaprófin þegar að þeim kom. Að temja mér þetta vinnulag í MTR kom sér mjög vel þegar í háskólann var komið og mér fannst ekki vanta neitt sérstakt upp á í undirbúningi mínum fyrir námið í háskólanum. Það voru auðvitað ákveðin viðbrigði að fara í lokapróf en með því að læra jafn og þétt yfir önnina urðu þau ekki eins erfið og ég hafði reiknað með í fyrstu.
Eftirminnilegast úr MTR er starfsfólkið, og allt fólkið sem var þarna. Það var alltaf gott að koma í skólann og allir tóku alltaf vel á móti manni. Miðannarvikurnar voru líka mjög skemmtilegar og fjölbreyttar. Það var gaman að brjóta upp annirnar með öðrum verkefnum í þeim vikum.