Klara Mist gestafyrirlesari

Nemendur á starfsbraut sátu agndofa og hlustuðu á frásögn Klöru Mist Pálsdóttur af ferðum sínum til Kenía og Indlands í sumar. Hún var sjálfboðaliði á vegum Múltí Kúltí samtakanna í einn mánuð á hvorum stað. Á Indlandi málaði hún og snyrti til á heimilum fyrir munaðarlaus börn en í Kenía voru störfin margvísleg.

Nemendur á starfsbraut sátu agndofa og hlustuðu á frásögn Klöru Mist Pálsdóttur af ferðum sínum til Kenía og Indlands í sumar. Hún var sjálfboðaliði á vegum Múltí Kúltí samtakanna í einn mánuð á hvorum stað. Á Indlandi málaði hún og snyrti til á heimilum fyrir munaðarlaus börn en í Kenía voru störfin margvísleg. Athyglisverðast fannst nemendum að heyra af því hvernig fólk býr á þessum fjarlægu stöðum og hvernig samskiptum og félagslífi er háttað. Klara Mist greindi til dæmis frá því að á Indlandi væru engin heimili fyrir aldraða og nú væri fólk byrjað að spá í að eitthvað þyrfti að gera fyrir þá. Hugmyndin væri að munaðarlaus börn og aldraðir einstæðingar gætu verið saman á heimilum. Í Kenía eru hins vegar dæmi um að skörð séu í foreldrakynslóðina vegna alnæmis og eftir standi gamlar ömmur og afar með hóp barna sem þau þurfa að koma til manns. Klara Mist er flestum starfsbrautarnemendum að góðu kunn þar sem hún var stuðningsfulltrúi á brautinni á síðasta skólaári. Hún er að ljúka BA prófi í þjóðfræði og mannfræði frá Háskóla Íslands og er að hefja meistaranám í þróunarfræðum.