Kennarafundi var stýrt frá Kalamata í Grikklandi að þessu sinni. Þar er Karólína Baldvinsdóttir fundarstjóri stödd með nemendum í námsferð og sat undir ólífutré á fundinum.
Fjarvinna og upplýsingatækni eru mikilvægur þáttur í skólastarfi í MTR. Stærstur hluti nemenda eru enda fjarnemar og koma aldrei í skólann og öll samskipti við þá eru á netinu. Kennarar skólans eru einnig búsettir á ýmsum stöðum og sinna kennslu hvar sem þeir eru staddir í heiminum. Vikulegir kennarafundir eru fjarfundir og skiptir þá engu hvort kennarar eru staddir í skólahúsinu eða annarsstaðar, allir sitja við sama borð, hver með sitt snjalltæki. Á kennarafundinum í morgun voru kennarar óvenju dreifðir um heiminn eða á tíu stöðum. Á fundinum voru því 27 kennarar, staddir í Ólafsfirði, Siglufirði, Dalvík, Akureyri, Reykjavík, Gautaborg, London, Dénia á Spáni, Kalamata í Grikklandi og Puerto de Mogán á Kanaríeyjum. Á tveimur síðastnefndu stöðunum eru kennarar staddir tímabundið.