Mikael Sigurðsson, nemandi á tónlistar- og náttúruvísindabraut MTR, gerði sérlega góða ferð á suðvesturhornið í síðustu viku. Auk þess að vinna Söngkeppni framhaldsskólanna með félögum sínum Herði Inga, Júlíusi og Tryggva tókst Mikael að sjá og mynda flækingsfuglana elrigreip og heiðatittling. Þar með hefur hann náð því marki, yngstur allra, að sjá og mynda 200 flækningsfugla hér á landi.
Mikael er aðeins 16 ára. Fuglana sá hann við Garðskaga og fylgja myndir hans af þeim með fréttinni. Það er heiðatittlingur sem var tvöhundraðasti fuglinn. Mikael hvetur fólk sem sér fugl sem það hefur ekki séð áður og gæti verið sjaldséður flækingur að láta sig vita eða tilkynna það á Birding Iceland á Facebook.
Fuglaáhugamenn sem hafa sérstakan áhuga á flækingsfuglum ferðast gjarnan langar leiðir til að ná myndum af fuglum sem vindar bera hingað stöku sinnum. Vegna ungs aldurs hefur Mikael notið aðstoðar föður síns, Sigurðar Ægissonar, við að komast á vettvang vítt um land þar sem vart hefur orðið flækingsfugla eða líkur eru á að sjá þá. Talsverð keppni ríkir á milli áhugamanna um að sjá sem flestar tegundir og fá þær skráðar og staðfestar af Flækingsfuglanefnd. Á listanum eru núna 36 einstaklingar, Mikael er þar neðstur en rétt ofan við hann er faðirinn með 209 tegundir. Sjá nánar hér: https://notendur.hi.is/yannk/club200.htm
Samtals hafa sést hér á landi um 400 tegundir fugla. Þar af eru um 290 flækingsfuglar.