Hverjir skrifa fréttirnar?

Aðalsteinn mynd HF
Aðalsteinn mynd HF
Um þriðjungur frétta íslenskra fjölmiðla byggjast á fréttatilkynningum. Misjafnt er hve miklu miðlarnir bæta við. Vefmiðlar bæta minnstu við, í tveimur af hverjum þremur fréttum er það ekki neitt, fréttatilkynning er birt óbreytt og engu bætt við. Þetta kom fram í kynningu Aðalsteins Ragnarssonar í FÉL2A í morgun.

Um þriðjungur frétta íslenskra fjölmiðla byggjast á fréttatilkynningum. Misjafnt er hve miklu miðlarnir bæta við. Vefmiðlar bæta minnstu við, í tveimur af hverjum þremur fréttum er það ekki neitt, fréttatilkynning er birt óbreytt og engu bætt við. Þetta kom fram í kynningu Aðalsteins Ragnarssonar í FÉL2A í morgun.

Kynning Aðalsteins byggði á rannsókn Vignis Egils Vigfússonar sem var lokaverkefni hans við Háskólann á Akureyri og fjallað var um í Blaðamanninum. Í ljós kom að sjónvarp bætir næstum alltaf einhverju við fréttatilkynningar og útvarp oftast en dagblöð og vefmiðlar birta í 42-65% tilvika fréttatilkynningarnar óbreyttar og bæta engu við. Aðalsteinn sagði að þetta væri eins og þegar nemendur skiluðu úrlausnum sem væru bara „copy/paste“ af netinu. Einhverjir allt aðrir en frétta- og blaðamenn skrifuðu fréttirnar að verulegum hluta.

Sólrún Anna Óskarsdóttir fjallaði um stöðu héraðsfréttablaða og byggði á hluta lokaverkefnis Björns Þorlákssonar, ritstjóra Akureyri vikublaðs en hann útskrifaðist frá Háskólanum á Akureyri, fyrr á þessu ári. Fram kom að nálægðarvandi stuðlaði að sjálfsritskoðun á héraðsfréttablöðum. Einnig hafði verið viðkvæmt að spyrja ritstjóra um „eldveggi“ sem eiga að vera milli auglýsinga og ritstjórnarefnis. Þá hefðu skil keypts efnis og ritstjórnarefnis orðið óljósari eftir að fríblöðin komu til sögunnar. Ritstjórar reyndu að vinna sjálfstætt en sölumennska frétta væri orðin að allsherjarlögmáli.

Í lok tímans kynnti Jódís Jana Helgadóttir samnemendum sínum myndefni þar sem sýnt er hvernig líkömum sýningarstúlkna er breytt á myndum. En þessar breytingar eru oftast kenndar við myndvinnsluforritið „photoshop“. Nokkrar umræður spunnust um þessar breytingar og sagði einn nemandinn að þetta þætti ekki lengur fínt. Flestu venjulegu fólki þættu „stúlkur með líkama“ fallegri en hinar. Aðgreiningin í stúlkur með líkama og hinar (glansmyndir) virtist algerlega skýr í huga nemenda. Hér er slóðin á efnið sem Jódís Jana sýndi:

http://kanene.tumblr.com/post/102192550096/hiiamfarid-cringing-birdvswindowpane