Hugrún Pála Birnisdóttir er frá Ólafsfirði. Hún útskrifaðist af íþróttabraut MTR að lokinni haustönn 2014. Hún fór svo í geislafræði í Háskóla Íslands og lauk þar grunnnámi. Í framhaldi af því flutti hún til Noregs til að sérhæfa sig í tölvusneiðmyndun og útskrifaðist með meistaragráðu í biomedisin frá Oslo Metropolitan University vorið 2021. Hugrún Pála býr í dag á Akureyri og starfar sem geislafræðingur og einingastjóri á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Við spurðum Hugrúnu Pálu hvernig námið í MTR hafi undirbúið hana fyrir háskólanámið og hvað sé eftirminnilegast frá skólagöngunni.
Mér fannst námið í MTR undirbúa mann mjög vel fyrir það að bera ábyrgð á sjálfum sér, skipuleggja tímann sinn vel og læra jafnt og þétt yfir önnina. Það gagnaðist mér sérstaklega vel að fá grunninn sem ég fékk í fögum eins og líffæra-og lífeðlisfræði, íþróttafræði og næringarfræði og símatið hélt manni á tánum í náminu. Mér fannst ekkert sérstakt vanta upp á í undirbúningi. Þegar maður fór að taka stór lokapróf í háskólanum fannst mér það ekki mikið mál því ég var búin að venja mig á að læra almennilega í hverri viku. Því var auðveldara að undirbúa sig fyrir stór próf með því að rifja upp námsefnið.
Eftirminnilegast úr MTR finnst mér viðmótið sem maður fékk, allir voru boðnir og búnir til að hjálpa manni. Ég var á fullu á skíðum á þessum tíma og það var alltaf tekið vel í æfinga- og keppnisferðir hjá manni. Ekkert mál að missa úr tímum o.þ.h. maður bar bara ábyrgð á að vinna það upp utan skólans. Verð líka að nefna allar útivistarferðirnar og alla ræktartímana eldsnemma á morgnana með Óskari og co, það var alltaf stemning!