Menntaskólinn á Tröllaskaga er Heilsueflandi framhaldsskóli og hefur sína heilsu- og forvarnarstefnu sem nýlega hefur verið endurskoðuð. Íþróttir, útivist og ýmis konar hreyfing hefur ávallt verið mikilvægur þáttur í skólastarfinu. Á síðari árum hefur andlegi þátturinn einnig orðið meira áberandi og býður skólinn m.a. upp á áfanga í geðrækt, jákvæðri sálfræði og kynheilbrigði og nemendur fá reglulega fyrirlestra um slík málefni t.d. þegar Geðlestin og Ástráður, kynfræðslufélag læknanema, koma í heimsókn.
En það eru ekki bara nemendur sem huga að heilsunni, starfsfólk skólans er engir eftirbátar í þeim efnum og hafa undanfarin ár lagt sífellt meiri áherslu á heilsuna í starfi sínu, frítíma og endurmenntun. Að auka daglega hreyfingu var áhersluatriði hjá starfsfólki fyrir Covid - faraldurinn en þegar ljóst var hversu djúp áhrif faraldurinn hafði haft á andlega heilsu var ákveðið að huga sérstaklega að andlegri vellíðan. Fagfundir voru m.a. nýttir til að kynna starfsfólki ýmis ráð til að bæta sína andlegu líðan. Sáu ýmsir gestafyrirlesarar og kennarar skólans um þá fræðslu og starfsfólk studdi hvort annað og veitti ýmis góð ráð sín á milli.
Áfram hefur verið haldið á þessari braut síðustu annir. Líkamleg og andleg heilsa hefur reglulega verið til umfjöllunar á fagfundum starfsfólks auk þess sem ýmsum heilsutengdum ráðum hefur verið deilt á sérstakri heilsusíðu starfsfólks á fésbókinni. Kennarar skólans hafa einnig verið með verklegar kynningar fyrir samstarfsfólk sitt, má þar t.d. nefna skíðagöngu og sundjóga og iðjuþjálfi skólans er veitir góð ráð um vinnustellingar og vinnuaðstöðu á fundum. Ekki má gleyma ferð meginþorra starfsfólks á vikulangt endurmenntunarnámskeið í Puerto de la Cruz á norðurströnd Tenerife vorið 2022 þar sem helsta viðfangsefnið var að læra að þekkja streituvalda og tileinka sér aðferðir til að vinna bug á þeim.
Um þessar mundir er starfsfólk að kynna sér áhrif blóðsykurs á heilsu okkar og líðan og yoga fræði þar sem farið er í gegnum frumefnin fimm, auk þess að stunda ýmis konar hreyfingu innandyra sem úti í okkar fögru náttúru.