Litrík sýning nemenda

Haustsýning 2019 mynd GK
Haustsýning 2019 mynd GK

Að venju eru verk nemenda á listabraut áberandi á sýningunni en einnig gefur að líta verk nemenda á starfsbraut, nema í íslensku, ensku, frumkvöðlafræði og inngangi að félagsvísindum.

Málverk, skúlptúrar, ljósmyndir og verk úr endurnýttum efnum setja svip á sýninguna. Mörg málverk bárust úr áföngum í listasögu og heimspeki fagurfræðinnar. Fjölmargar litríkar sjálfsmyndir frá nemendum í áfanganum Efni og litir prýða anddyri skólabyggingarinnar.

Frumleg og fjölbreytileg verk innblásin af Gylfaginningu fylla eina stofu. Þetta eru verkefni úr íslenskuáfanga á öðru þrepi. Efniviðurinn er fjölbreyttur, auk málverka og teikninga gefur að líta prjónaða peysu, verk úr perlum, teiknimyndasögur og fleira. Sérstaka athygli vekur ljósmyndaröð með leiknum atriðum úr Gylfaginningu, tekin í Kjarnaskógi við Akureyri. Þá skiluðu fjórir nemendur frumsömdu lagi með eigin texta sem þeir fluttu á sýningunni. Fjórmenningarnir og fleiri sáu um lifandi tónlist á meðan gestir og heimamenn nutu sýningarinnar.

Óveður setti stórt strik í reikninginn við undirbúning sýningarinnar þar sem nær allt skólastarf féll niður síðustu viku annarinnar. Þrátt fyrir að kennarar væru hríðtepptir utan Ólafsfjarðar tókst að koma sýningunni upp á mettíma. Sýningarstjórinn Bergþór Morthens hengdi síðustu myndina upp fimm mínútum áður en sýningin var opnuð.

Myndir