Haldið upp á Alþjóðadag barna

Í dag, þann 20. nóvember, er Alþjóðadagur barna. Þetta er dagurinn þar sem við fögnum og minnum á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þau lögfestu réttindi sem þessi útbreiddasti mannréttindasáttmáli heims tryggir öllum börnum. Barnasáttmálinn var samþykktur á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1989, á Íslandi var hann lögfestur á Alþingi árið 2013. Í tilefni dagsins fá börn og ungmenni um allan heim orðið og láta rödd sína og skoðanir heyrast. Ungmennaráð UNICEF á Íslandi útbjó m.a. myndband með kraftmiklum skilaboðum ungmenna til fullorðinna hér á landi og ráðamanna um allan heim. Barnaheill lét einnig gera myndband þar sem rætt er við börn sem hafa hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna stríðsátaka, loftslagsbreytinga eða náttúruvár og áfallið sem því getur fylgt. Er þar m.a. rætt við börn frá Grindavík sem þurftu að flytja þaðan vegna jarðhræringanna á Reykjanesi.

Til að fagna deginum komu nemendur MTR saman í sal skólans og horfðu á myndböndin og síðan var farið í spurningakeppni þar sem spurningarnar snérust um Barnasáttmálann og þau réttindi sem hann á að tryggja börnum um allan heim. Spurningarnar sömdu nemendur í áfanga sem ber titilinn Heimsmarkmið - umhverfi og sjálfbærni þar sem fjallað er um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna út frá umhverfisvernd, mannréttindum, heilbrigði og félagslegri velferð. Markmið spurninganna var að fá nemendur til að velta fyrir sér mismunandi stöðu barna í heiminum.

Hér eru myndböndin tvö.