Nemendur starfsbrautar brugðu sér suður á Reykjanes fyrir helgina og tóku þátt í hinni árlegu Hæfileikakeppni starfsbrauta framhaldsskólanna, sem að þessu sinni fór fram í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Framlag starfsbrautarinnar var stuttmynd sem nemendur höfðu tekið upp, klippt og gert algjörlega eftir sínu höfði auk þess að vera að sjálfsögðu aðalsöguhetjurnar. Myndinni er ætlað að gefa sýn inn í hið fjölbreytta starf sem unnið er á starfsbrautinni og þótti takast vel þrátt fyrir knöpp tímamörk, en hvert atriði í keppninni mátti ekki taka meira en um þrjár mínútur.
Hæfileikakeppni starfsbrauta
Nemendur starfsbrautar brugðu sér suður á Reykjanes fyrir helgina og tóku þátt í hinni árlegu Hæfileikakeppni starfsbrauta framhaldsskólanna, sem að þessu sinni fór fram í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Framlag starfsbrautarinnar var stuttmynd sem nemendur höfðu tekið upp, klippt og gert algjörlega eftir sínu höfði auk þess að vera að sjálfsögðu aðalsöguhetjurnar. Myndinni er ætlað að gefa sýn inn í hið fjölbreytta starf sem unnið er á starfsbrautinni og þótti takast vel þrátt fyrir knöpp tímamörk, en hvert atriði í keppninni mátti ekki taka meira en um þrjár mínútur.
Lagt var af stað árla fimmtudagsmorguns með nesti og nýja skó og ekki gleymdist heldur að taka góða skapið með, sem er ómissandi í ferðir sem þessar. Ferðin suður gekk vel með matarstoppi í Borgarnesi og var mikið spjallað og hlegið á leiðinni. Þegar á Reykjanesið kom var farið á hið stórskemmtilega safn Víkingaheima, þar sem víkingaskipið Íslendingur er m.a. til sýnis í allri sinni dýrð. Þótti nemendum það mikil upplifun að stíga um borð í víkingaskip og kom mörgum á óvart hversu stórt og rúmgott það var. Þarna var einnig hægt að fræðast um landafundi, fyrstu byggð á Íslandi, goðsagnaheim okkar Íslendinga og prufa vopn og verjur víkinganna. Var þetta í alla staði ánægjuleg heimsókn.
Þá var haldið uppá gistiheimili til að koma sér fyrir og græja sig fyrir kvöldið og eftir bita á skyndibitastöðum Keflavíkur var haldið á keppnina sjálfa. Þar var samankominn fjöldi manns því 13 skólar sendu inn atriði að þessu sinni. Atriðin voru fjölbreytt og skemmtileg og var söngur áberandi í flestum þeirra. Stuttmyndin okkar vakti mikla athygli og þótti áhorfendum greinilega mikið um fjölbreytt og spennandi viðfangsefni á starfsbraut MTR. Við náðum þó ekki að landa einu af þremur efstu sætum keppninnar að þessu sinni en allir gengu sáttir frá borði. Að lokinni keppni söng Alda Dís m.a. nokkur lög og svo var stiginn dans fram eftir kvöldi. Sáust mörg skemmtileg tilþrif á dansgólfinu en allir voru þó ánægðir að komast í koju eftir annasaman dag og sofnuðu með bros á vör.
Eftir góðan morgunverð á föstudagsmorgni var ekið sem leið lá í Smáralindina þar sem litið var inn í nokkrar búðir og maginn fylltur fyrir heimferðina. Sem fyrr var gleðin allsráðandi og ævintýr gærdagsins rifjuð upp reglulega auk þess sem brandarar og gamansögur flugu. Það var því sáttur og sæll hópur sem kom heim síðdegis á föstudag eftir skemmtilega og eftirminnilega ferð, hópur sem hefur nú náð að þjappa sér enn betur saman en fyrr.
Hér má sjá myndir úr ferðinni og myndbandið góða.