Góðir gestir í heimsókn

Erasmus nemendur mynd Sigurbjörg Ingvarsdóttir
Erasmus nemendur mynd Sigurbjörg Ingvarsdóttir

Þessa viku er fjölmennt í skólanum. Í heimsókn eru nemendur og kennarar úr skólum frá Spáni, Portúgal og Króatíu, samtals um 30 manns. Þessir skólar eru í samstarfi við MTR í verkefni sem kallast "Becoming a Biomaker School". Snýst það um þau heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem lúta að umhverfi og sjálfbærni og er Erasmus+ verkefni sem styrkt er af Evrópusambandinu. Verkefnið hófst formlega í Lissabon í Portúgal í lok síðustu annar þar sem fulltrúar spænska skólans og 14 manna hópur frá MTR sótti portúgalska skólann heim en Króatarnir tóku þátt með rafrænum hætti í það skipti.

Vinnan í verkefninu þessa viku hér í MTR er fjölbreytt. Unnið er sem fyrr með heimsmarkmiðin og þau tengd við þá grænfánavinnu sem fer fram í skólanum. Þátttakendur skoða m.a. hvaða áhrif þeir geta haft á loftslagsmálin með sínum gjörðum hvort sem er heima, í skólanum eða utandyra (sjá slóð hér að neðan) og Kristrún María Heiðberg, verkefnastýra UNESCO-skóla, hélt fyrirlestur um UNESCO-skóla og heimsmarkmiðin. Einnig mun hópurinn láta til sín taka úti í náttúrunni þar sem unnið verður með Skógræktarfélagi Ólafsfjarðar að gróðursetningu og fjörur verða hreinsaðar með Veraldarvinum. Eitthvað af því sem finnst í fjörunni verður síðan endurnýtt og sköpuð listaverk úr þeim efnivið. Dagskránni lýkur á föstudaginn þegar gestirnir halda suður á bóginn og þiggja heimboð frá forseta Íslands á Bessastöðum áður en haldið er út á flugvöll.

Gestirnir eru mjög ánægðir með heimsóknina, þó veðrið mætti vera betra, og vona að það létti til svo þeir hafi möguleika á að sjá norðurljósin. Góð kynni eru að takast á milli nemenda sem kennara skólanna fjögurra og líflegar samræður má heyra um alla ganga. Erlendu nemendunum finnst skólinn vera mjög opinn og frjálslegur og erlendu kennararnir eru hrifnir af hinu sveigjanlega íslenska framhaldsskólakerfi sem býður upp á fleiri möguleika en þeir eiga að venjast. Myndir

Á næstu önn heldur verkefnið svo áfram þar sem þátttakendur koma saman á Spáni og endapunkturinn verður í Króatíu næsta haust.

https://www.un.org/sustainabledevelopment/takeaction/?fbclid=IwAR01M8mn-O2tb2GPiELpbf2CQnkfiaugra2J2yZr_0XYQMBuQAqUsrOxjLw