Skeggrætt um skólamál. Ljósm. SMH.
Í gær kom 29 manna hópur starfsfólks Menntaskólans á Egilsstöðum til okkar í heimsókn. Skipulögð var þriggja tíma dagskrá þar sem starfsfólk og nemendur kynntu skólann fyrir gestunum en einnig gafst tími til að ræða málin.
Gestirnir gátu valið sér borð þar sem starfsfólk og nemendur MTR kynntu m.a. erlent samstarf, grænfánaverkefni, heimsmarkmið, leikjavæðingu, stundatöflu og gervigreind sem þessa dagana mjög til umræðu hjá skólafólki. Í lok dagsins voru samræðuhópar um umhverfismál, fjarvinnu, listir og þar kom gervigreindin aftur við sögu.
Skólarnir hafa lengi átt í samstarfi og heimsókn sem þessi hefur lengi verið á döfinni. Það er mjög gagnlegt fyrir starfsfólk að hittast og bera saman bækur sínar og kynnast hvernig sambærileg viðfangsefni eru leyst á ólíkan hátt. Einn gestanna sagðist eftir daginn aldrei hafa upplifað jafn djúpar umræður um skólamál eins og í gær. Samræður sem þessar eru uppspretta nýrra hugmynda og lausna og við í MTR erum áhugasöm um að heimsækja Héraðsbúana, læra af þeirra reynslu og halda samtalinu áfram. Við þökkum kollegum okkar í ME kærlega fyrir komuna og óskum þeim góðrar skemmtunar á Norðurlandinu um helgina.
Myndir frá deginum.