Menntaskólinn á Tröllaskaga er heilsueflandi framhaldsskóli og hér er hugað að andlegri- sem líkamlegri heilsu nemenda og starfsfólks með ýmsum hætti. Fastur liður í forvarnarstarfi skólans er þátttaka í Forvarnardeginum sem settur er þann 2. október ár hvert en hann er nú haldinn í 19. sinn. Dagskráin er hugsuð fyrir nemendur í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Yfirskrift Forvarnardagsins í ár er Hugum að verndandi þáttum og vellíðan í lífi barna og ungmenna með kærleik!
Embætti landlæknis fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins og samstarfsaðilar eru embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Rannsóknir og greining, Planet Youth, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Samfés, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Bandalag íslenskra skáta, Ríkislögreglustjóri og Heimili og skóli.
Verkefni Forvarnardagsins hafa frá upphafi verið byggð á rannsóknum. Skólar fá aðgang að verkefnum í glæruformi þar sem kennarar fara yfir verndandi þætti og hvað hægt er að gera til að auka vellíðan. Auk þess fá nýnemar kynningu á góðum árangri í forvarnarmálum á Íslandi sem lýsir sér m.a. í minnkandi áfengisneyslu og reykingum meðal ungs fólks. Nýjar áskoranir, s.s. neysla orkudrykkja, notkun nikótínpúða, of lítill svefn ungmenna og mikil snjallsímanotkun voru einnig ræddar í ár. Nemendur nýttu þetta efni svo til umræðu í hópavinnu og skráðu og skiluðu inn hugmyndum sínum á vef forvarnardagsins. Ræddu þau um hvað veitir þeim vellíðan og hefur áhrif á góða heilsuhegðun, um samskipti og samveru með foreldrum og fjölskyldu, áhrif félagsþrýstings o.fl. Einnig ræddu nemendur um þá ákvörðun að drekka ekki eða seinka því að byrja að drekka áfengi og hvaða þættir hafa áhrif á þá ákvörðun. Svörum allra skóla sem taka þátt er safnað saman til að finna samnefnara í umræðum nýnema og eru niðurstöðurnar nýttar í áframhaldandi forvarnarvinnu.
Rannsóknir hafa sýnt að samvera með fjölskyldunni, þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og það að leyfa heilanum að þroskast án neikvæðra áhrifa eru verndandi þættir fyrir áhættuhegðun. Á síðunni https://www.forvarnardagur.is/ er hægt að finna ýmis konar fræðslu og upplýsingar sem foreldrar eru hvattir til að kynna sér og taka umræðuna einnig inni á heimilinu. Foreldrar gegna mikilvægu hlutverki í að styðja við verndandi þætti í lífi barna sinna. Mestum árangri verður náð með leiðandi uppeldisháttum þ.e. þegar foreldrar veita börnum sínum hlýju og umhyggju, leiðbeina, ræða málin og setja skýr mörk. Samkvæmt lögum er ábyrgð foreldra til 18 ára aldurs.