Ljósmynd: GK
Forvarnardagurinn var haldinn í Menntaskólanum á Tröllaskaga í dag. Dagurinn er haldinn í skólum landsins á hverju hausti og þá er sjónum sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla, þema dagsins var andleg líðan ungmenna. Að Forvarnardeginum standa embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, Skátarnir, Ungmennafélag Íslands, Rannsóknir og greining, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Samfés og Heimili og skóli, auk embættis landlæknis sem fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins.
Nýnemar í MTR fengu kynningu frá heilsu- og forvarnarteymi skólans um góðan árangur hér á landi í forvarnarmálum. Sá góði árangur lýsir sér m.a. í minnkandi áfengisneyslu og reykingum meðal ungs fólks en aukning á neyslu orkudrykkja, notkun nikótínpúða og minni svefn ungmenna en fyrr veldur aftur á móti ´áhyggjum. Auk þess var fjallað um verndandi þætti gegn áhættuhegðun. Þeir þættir eru samvera með fjölskyldu, þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og að leyfa heilanum að þroskast. Nýnemar tóku síðan þátt í hópavinnu og umræðum um þessi efni og skráðu og skiluðu inn hugmyndum sínum.
Eftir hádegið var svo boðið upp á fræðsluefni í Hrafnavogum fyrir alla nemendur skólans um verndandi þætti gegn áhættuhegðun sem og svefn og mikilvægi þess að leyfa heilanum að þroskast. Foreldrum var sent fræðsluefni um mikilvægi og áherslur verndandi þátta í lífi ungmenna.
Allir nemendur geta tekið þátt í leik á vefsíðu Forvarnardagsins www.forvarnardagur.is þar sem möguleiki er á þátttöku verðlaunum. Verðlaunin verða afhent af forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu. Á vefnum er einnig hægt að finna ýmis konar fræðslu og upplýsingar sem foreldrar eru hvattir til að kynna sér.