Jólakvöld mynd ÞH
Í gærkvöldi hélt nemendafélagið Trölli sitt árlega Jólakvöld en það er einn af hápunktunum í félagslífinu í skólanum ár hvert. Staðnemar og hluti starfsmannahópsins mætti þar til veglegrar matarveislu í sal skólans og að henni lokinni voru heilasellurnar virkjaðar í spurningaleikjum. Boðið var upp á þrírétta matseðil; grafinn og reyktan lax, pate og tvíreykt hangikjöt í forrétt, hamborgarhrygg og kalkúnabringu með tilheyrandi meðlæti í aðalrétt og svo ísrétt til að toppa sæluna. Salurinn var skreyttur jólaljósum og jólalögin ómuðu.
Nemendaráð sá um allan undirbúning og hafði veg og vanda af dagskránni; bauð gesti velkomna, stýrði borðhaldi, skenkti á diska og tók af borðum er fólk hafði fengið nægju sína. Nemendaráð stýrði einnig spurningakeppni milli blandaðra liða nemenda og starfsfólks þar sem sækja þurfti upplýsingar í hina ýmsu kima heilabúsins. Ómissandi þáttur í Jólakvöldinu er svo hin þematengda Kahoot-spurningakeppni Magna, sem er nemandi skólans, og að þessu sinni var þemað Star Wars. Er óhætt að segja að keppendum hafi gengið misvel að svara spurningum um það efni og að yngra fólkið hafi staðið sig mun betur í þessum lið en þeir sem eldri eru.
Skemmtileg og notaleg kvöldstund og vel að öllu staðið hjá unga fólkinu sem fær ómetanlega reynslu við að fást við skipulag viðburðar sem þessa. Myndir