Gestkvæmt var í skólanum í dag og allir gestirnir uppábúnir. Brugðið hefur fyrir ýmsum þekktum fígúrum úr teiknimyndum og jafnvel þjóðsögum. Stöku heimamaður hefur líka tekið á sig gervi og fór þar fremstur í flokki skólameistarinn. Nemendur og starfsmenn hafa notið söngs margra barna og þau hafa þegið sælgæti að launum. Flestum gestanna finnst ákveðið fútt í því að komast í hljóðkerfi skólans og heyra sönginn óma í anddyrinu, þótt hávaði frá smiðunum sem eru að byggja við skólann hafi truflað sum atriðin í dag. Superman og Spiderman máttu sín til dæmis lítils gegn hávaða frá borvélum og öðrum verkfærum byggingarmanna. Söngvar um sólina og skæru litina voru áberandi enda snjóföl yfir öllu í Ólafsfirði. Lítið fréttist hins vegar af Bjarnastaðabeljunum og Björg Traustadóttir hótar að beita Gamla-Nóa viðskiptaþvingunum. MYNDIR