Friðarvika í MTR mynd ÞH
Alþjóðlegur dagur friðar er haldinn 21. september ár hvert. Dagurinn var fyrst helgaður alþjóðlegum friði árið 1982 og til hans stofnað af Sameinuðu þjóðunum árið áður. Árið 2001 var dagurinn gerður að alþjóðlegum degi friðsamlegra aðgerða og vopnahlés. Sameinuðu þjóðirnar bjóða öllum þjóðum og íbúum heims að stöðva átök og hernaðaraðgerðir á deginum og að öðru leyti minnast dagsins með vitundarvakningu í menntastofnunum og hjá almenningi um málefni er snúa að friði.
Menntaskólinn á Tröllaskaga er UNESCO-skóli en UNESCO (United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization) er Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Á vegum hennar er starfrækt alþjóðlegt samstarfsnet skóla sem kallast UNESCO-skólar. Meginmarkmið UNESCO er að stuðla að friði og öryggi í heiminum með því að efla alþjóðlega samvinnu á sviði menntunar, vísinda- og menningarmála.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tekur ákvörðun um að ákveðnir dagar, vikur, ár og jafnvel áratugir skuli helgaðir tilteknum málefnum á vettvangi samtakanna. Síðastliðið vor völdu nemendur og kennarar MTR þrjá þessara daga til að vinna með á haustönn. Einn þeirra sem varð fyrir valinu var alþjóðadagur friðar og var ákveðið að núverandi vika væri helguð fræðslu um málefni friðar og unnin yrðu ýmis verkefni sem tengjast boðskap fyrir friði. Nemendur og kennarar í áfanga sem fjallar um umhverfismál og sjálfbærni skipulögðu vikuna í samstarfi við Idu Semey, kennara skólans, sem hefur verið leiðandi í vinnu með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna innan skólans.
Dagskráin hófst að morgni þriðjudags með því að heimsmarkmiðafáninn var dreginn að húni og síðan voru sýnd nokkur stutt myndbönd sem vöktu nemendur og starfsfólk til umhugsunar um mikilvægi friðar. Að þeim loknum tóku við skapandi smiðjur þar sem unnið var með friðarmerki. Ólafsfirðingurinn, Klara Mist Pálsdóttir, flutti loks erindi þar sem hún sagði frá starfi sínu hjá samtökunum Læknar án landamæra. Sagði hún frá því hvernig samtökin starfa og lagði áherslu á að það væru ekki bara læknar og hjúkrunarfólk sem starfaði fyrir samtökin því ýmis önnur störf þarf að inna af hendi svo hægt sé að veita þá aðstoð sem samtökin gera. Sagði hún síðan frá verkefnum sem hún hefur tekið þátt í í Afríku og brá upp myndum sem sýndu þær fjölbreyttu aðstæður sem starfsfólkið býr og starfar við. Hvatti hún nemendur til að leggja sitt af mörkum til friðar og tók undir með kennurum skólans að erlend samstarfsverkefni, eins og nemendur MTR hafa mikil tækifæri til að taka þátt í á vegum skólans, vekti þau til umhugsunar um mismunandi aðstæður og menningu meðal þjóða heimsins. Mjög gott væri að hafa slík verkefni á ferilskrá sinni ef þau ætluðu t.d. að sækja um starf hjá svona hjálparsamtökum eða annars staðar þar sem samvinna og víðsýni væru mikilvæg. Eins lagði hún áherslu á að góð tungumálakunnátta opnaði ýmsar dyr.
Næstu daga verður unnið áfram að því að vekja athygli á mikilvægi friðar í heiminum. Munum við gera þeirri vinnu skil síðar í vikunni. Myndir