Fræðsla um frið og mannréttindi

Í tilefni af Alþjóðlegum degi friðar, sem haldinn er 21. september ár hvert, var þessi vika í skólanum tileinkuð fræðslu um málefni friðar og unnin voru ýmis verkefni sem tengjast boðskap fyrir friði. Dagurinn var fyrst helgaður alþjóðlegum friði árið 1982 og til hans stofnað af Sameinuðu þjóðunum árið áður. Nemendur og kennarar í áfanga sem fjallar um umhverfismál og sjálfbærni skipulögðu dagskrá vikunnar í samstarfi við Idu Semey, kennara skólans, sem hefur verið leiðandi í vinnu með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna innan skólans.

Dagskráin hófst á þriðjudegi með nokkrum myndböndum sem vöktu til umhugsunar um mikilvægi friðar, þá tóku við smiðjur þar sem unnið var með friðarmerkin og svo flutti Klara Mist Pálsdóttir erindi um störf sín í Afríku með samtökunum Læknar án landamæra. Þótti nemendum sem kennurum það mjög áhugavert. Að lokum veltu allir fyrir sér hvaða orð þau tengdu við hugtakið “friður” og úr varð fallegt orðaský sem má sjá hér í myndunum sem fylgja fréttinni.

Miðvikudagurinn hófst með því að horft var á myndband sem varpaði ljósi á sögu átakanna á Gaza og haldið var áfram að vinna með friðarmerkin. Þau verða svo nýtt í listaverk sem mun prýða veggi skólans. Þá var komið að spurningakeppnum, sem bæði nemendur og starfsfólk, tók þátt í og var spurt út í það efni sem til umfjöllunar hafði verið þessa fyrstu tvo daga í friðarvikunni. Í hádeginu lék Hamingjubandið nokkur lög þar sem textarnir fjalla um réttindabaráttu, frið og samlíðan s.s. Blowin´ in the Wind, Það þarf fólk eins og þig, Imagine og Give Peace a Chance. Hljómsveitina skipuðu að þessu sinni þrír kennara skólans, nemendur tóku undir og léku á ásláttarhljóðfæri. Að söngnum loknum voru bakaðar vöfflur sem runnu ljúflega niður.

Fimmtudagurinn var síðasti þemadagurinn og sem fyrr var byrjað á að horfa á myndband. Að þessu sinni var sjónum beint að innrás Rússa í Úkraínu þar sem sagan að baki hennar var rakin. Friðarvikunni lauk síðan með erindi Helenu Ingu von Ernst, sérfræðings hjá utanríkisráðuneytinu, þar sem hún fjallaði um framboð Íslands til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, árin 2025 - 2027, og þær áherslur sem Ísland leggur til grundvallar í umsókn sinni. Kom þar margt áhugavert fram og voru ýmsar tengingar við umfjöllunarefni vikunnar sem dýpkuðu skilning nemenda á mikilvægi mannréttinda og tengslum þeirra við t.d. umhverfismál.

Dagskrá vikunnar tókst vel og nemendur og starfsfólk skólans er betur meðvitað um stöðu mannréttinda í heiminum í dag sem og þá staðreynd að hvert og eitt okkar getur lagt sitt af mörkum til að gera heiminn að betri stað. Myndir

 
#PeaceDay