Mynd ÞH
Menntaskólinn á Tröllaskaga er UNESCO-skóli og stendur sem slíkur fyrir dagskrá nokkra þeirra daga sem Sameinuðu þjóðirnar tileinka ákveðnum málefnum. Í gær, þann 24. janúar, var Alþjóðlegi menntadagurinn og beindi UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, kastljósinu að hatursorðræðu en menntun og kennarar hafa lykilhlutverki að gegna í að takast á við hana. Hatursorðræða hefur magnast á undanförnum árum í skjóli samfélagsmiðla og hefur oft og tíðum grafið undan samheldni samfélaga.
Samkvæmt vef Sameinuðu þjóðanna er hatursorðræða olía á eld fordóma og mismununar, getur stuðlað að ofbeldi og gert það ásættanlegt. Þetta hafi færst mjög í aukana samfara meiri útbreiðslu samfélagsmiðla, að ekki sé minnst á nýtt og viðvarandi hamfarástand í ýmsum heimshornum. Hatursorðræða á samfélagsmiðlum getur við slíkar aðstæður snert öryggi heilla samfélaga um víða veröld. UNESCO hvetur á þessum degi aðildarríki sín til að setja menntun í forgang, sem úrræði til að efla samfélög sem hafa mannlega reisn og frið að leiðarljósi. Hröð útbreiðsla hatursáróðurs er ógn við öll samfélög. Menntun er okkar besta vörn og ber að vera miðlæg í allri friðarviðleitni.
Í tilefni dagsins var fána heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna flaggað við skólann og síðan var dagskrá sem tengdist þema dagsins. Nemendur horfðu fyrst á tvö myndbönd þar sem sjónum var beint að því annars vegar hvernig hatursorðræðu er beint að ákveðnum þjóðfélagshópum, þjóðarbrotum eða jafnvel heilu þjóðunum til að afmennska viðkomandi hópa. Hins vegar var myndband sem sýndi hvaða áhrif neikvæð og jákvæð skilaboð á samfélagsmiðlum höfðu á einstaklinga. Að loknu áhorfi mátu nemendur skilaboð myndbandanna með einni málsgrein og má sjá þá niðurstöðu í myndunum sem hér fylgja.
Þar sem MTR er heilsueflandi framhaldsskóli og vinnur að lýðheilsu undir þemum Skóla á grænni grein um þessar mundir var tækifærið notað til að fræða nemendur um tvö heilsutengd atriði. Iðjuþjálfi skólans fræddi nemendur um líkamsbeitingu og mikilvægi þess að standa reglulega upp og hreyfa sig í vinnutörnum við tölvuna. Síðan voru sýnd myndbönd af vef Heilsuveru þar sem fjallað var um orkudrykki, innihald þeirra og ábyrga neyslu. Myndir
Meðfylgjandi eru slóðir á myndböndin tvö sem nemendur horfðu á varðandi hatursorðræðu.
https://www.youtube.com/watch?v=bQeoUQa3MiU
https://www.youtube.com/watch?v=0mXOpe75Hoo