Forseti Íslands var heiðursgerstur í veislunni.
Ljósmynd GK.
Forseti Íslands mætti í matarboð í skólanum á föstudagskvöldið. Tilefnið var hátíðarkvöldverður sem er liður áfanganum Matur og menning. Auk nemenda af Tröllaskaga var það hópur nemenda frá Ítalíu og Spáni sem kom að undirbúningi veislunnar og á boðstólum voru hefðbundnir íslenskir réttir.
Á matseðlinum var fiskur í raspi, saltfiskur, kjötsúpa, soðið brauð, kleinur og marengsterta. Einnig komu erlendu nemendurnir með afurðir að heiman; osta og pylsur, sem boðið var upp á. Auk þess að elda matinn sáu nemendur um að skreyta salinn, dekka borð og voru einnig með skemmtiatriði í veislunni. Tveir af nemendum MTR reru til fiskjar og gerðu að aflanum sem síðan var matreiddur. Fjölmörg heimili á svæðinu tóku þátt í verkefninu með því að hýsa erlendu gestina og fyrirtæki lögðu til hráefni í veisluna. Þannig var mikil velvild og hjálpsemi í samfélaginu sem við erum þakklát fyrir. Fyrirtækin eru Kjarnafæði-Norðlenska, Ektafiskur, Garðyrkjustöðin Sólbakki og Betri vörur, sem reykja lax og silung.
Matur og menning, eða Let’s eat culture er Erasmus+ verkefni milli Menntaskólans á Tröllaskaga, IISS Patini Liberatore í Castel di Sangro á Ítalíu og IES Tías í Lanzarote á Kanaríeyjum. Markmiðið er að kynnast menningu landanna í gegn um matarhefðir. Nemendur safna saman uppskriftum, aðferðum og minningum í rafrænar matreiðslubækur en stór þáttur í verkefninu er að elda saman hefðbundna rétti í hverju landi.
Þetta er í annað sinn sem nemendur þessara þriggja landa koma saman. Hópurinn hittist á Ítalíu sl. vor og í lok nóvember er fyrirhuguð ferð til Lanzarote. Það er Ida Semey verkefnisstjóri erlendra verkefna í skólanum sem hefur veg og vanda að skipulagningunni. Sambærileg verkefni hafa verið í skólanum undanfarin ár og eru vinsæl hjá nemendum. Bæði eru þau skemmtileg en ekki síður lærdómsrík og skilja eftir sig reynslu sem eykur menningarlæsi, umburðarlyndi og víðsýni sem er verðmætt veganesti til framtíðar.
Hér má sjá myndir úr veislunni.