Í síðustu viku var óvenju fjölmennt og fjörlegt hjá okkur í skólanum. Í heimsókn var 30 manna hópur nemenda og kennara úr skólum frá Spáni, Portúgal og Króatíu. Þessir skólar eru í samstarfi við MTR í verkefni sem kallast "Becoming a Biomaker School". Snýst það um þau heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem lúta að umhverfi og sjálfbærni og er Erasmus+ verkefni sem styrkt er af Evrópusambandinu. Vinnan í verkefninu þessa viku í MTR var mjög fjölbreytt. Unnið var með heimsmarkmiðin og þau tengd við þá grænfánavinnu sem fer fram í skólanum. Þátttakendur skoðuðu hvernig við getum hvert og eitt haft á loftslagsmálin og fengu fræðslu hvað það varðar. Einnig unnu þeir listaverk úr ýmsu sem til fellur hjá okkur á heimilum og vinnustöðum. Hópurinn tók einnig til höndunum utandyra, gróðursetti með Skógræktarfélagi Ólafsfjarðar og hreinsaði fjörur í Ólafsfirði með Veraldarvinum.
Utan dagskrár fóru gestirnir m.a. í hvalaskoðun og áttu kvöldstund í félagsmiðstöð sveitarfélagins á Siglufirði. Svo vel vildi til að á sama tíma og þessi heimsókn stóð yfir voru einnig erlendir gestir í Grunnskóla Fjallabyggðar að vinna Nordplus verkefni. Var ákveðið að hafa sameiginlegt kaffiboð í MTR fyrir þátttakendur beggja verkefnanna í lok dagskrár á fimmtudagskvöldi. Voru þar um 100 manns frá 8 löndum saman komin og neyttu matar og drykkjar í boði starfsfólks og nemenda GF og MTR. Var þar kátt á hjalla og margt rætt á ýmsum tungumálum.
Heimsókn gesta MTR lauk með heimsókn á Bessastaði þar sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson tók á móti hópnum. Þótti hinum erlendu gestum það mikil upphefð og þátttakan í verkefninu á Íslandi mikil upplifun eins og sjá má á orðakortinu sem fylgir fréttinni. Þau orð sem eru þar stærst voru þau orð sem þátttakendur notuðu oftast við mat á vinnunni þessa viku í MTR. Myndir