Sagt er að góð heilsa sé gulli betri og er nokkuð til í þeirri fullyrðingu. Reglubundin hreyfing er einn lykillinn að góðri heilsu og þá er mikilvægt að finna sér íþrótt eða einhverja hreyfingu sem þér finnst gaman að því þá er mun líklegra að þú stundir hana reglulega. Á skólaárunum er mikilvægt að kynnast sem fjölbreyttustum íþróttum og hreyfingarmöguleikum því þá hefur þú einhverjar hugmyndir um hvaða hreyfing hentar þér þegar skólaárunum sleppir.
Íþróttakennarar Menntaskólans á Tröllaskaga eru vel meðvitaðir um þetta og er boðið upp á fjölbreytta íþrótta- og lýðheilsuáfanga í skólanum. Innan áfanganna er einnig bryddað upp á ýmis konar hreyfingu jafnt innan dyra sem utan. Í lýðheilsuáfanga sem Lísebet Hauksdóttir kennir á þessari önn hafa nemendur t.d. farið í fótbolta á sparkvellinum, körfubolta á útivellinum, siglt á kayak og bát og farið í sjósund og fyrrverandi nemandi skólans, Markús Romeó Björnsson, kom í heimsókn og kynnti nemendum hina vaxandi íþrótt frisbee-golf. En þess má geta að í sumar var tekinn í notkun slíkur völlur á Ólafsfirði. Myndir