Fjarmenntaskólinn stofnaður

Merki Fjarmenntaskólans
Merki Fjarmenntaskólans
Frá og með haustönn 2012 verður hægt að stunda nám í umhverfis- og auðlindafræði á framhaldsskólastigi í fyrsta sinn hér á landi. Menntaskólinn á Tröllaskaga er einn fjögurra framhaldsskóla sem stendur að nýrri umhverfis- og auðlindabraut og samstarfsverkefni um fjarmenntaskólann.is. Um er að ræða fjarnám til stúdentsprófs sem nemendur geta stundað hvar sem þeir eru búsettir.

Frá og með haustönn 2012 verður hægt að stunda nám í umhverfis- og auðlindafræði á framhaldsskólastigi í fyrsta sinn hér á landi. Menntaskólinn á Tröllaskaga er einn fjögurra framhaldsskóla sem stendur að nýrri umhverfis- og auðlindabraut og samstarfsverkefni um fjarmenntaskólann.is. Um er að ræða fjarnám til stúdentsprófs sem nemendur geta stundað hvar sem þeir eru búsettir.

Um allan heim snúast stærstu viðfangsefnin í nútíð og framtíð um samspilið milli nýtingar og verndunar auðlinda. Það sést á heitum umræðum hér á landi undanfarin misseri, þar sem spurt er; „hvernig á að nýta auðlindir lands og sjávar, hvar á að virkja og hvað á að vernda?“ Hagkerfi heimsins byggja á því að nýta auðlindir, án þess þó að eyðileggja þær. Á þetta reynir í öllum atvinnugreinum, sjávarútvegi, landbúnaði, iðnaði og ferðaþjónustu.

Í náminu á umhverfis- og auðlindabraut fléttast náttúruvísindi og félagsvísindi saman á spennandi hátt. Auk kjarnagreina er boðið upp á áfanga í auðlindafræði, umhverfisfræði, vistfræði, landafræði, og hagfræði.

Auk MTR standa Menntaskólinn á Egilsstöðum, Framhaldsskólinn í Austur Skaftafellssýslu og Fjölbrautaskóli Snæfellinga að umhverfis- og auðlindabrautinni sem er fyrsta námið sem boðið verður upp á undir merkjum Fjarmenntaskólans.

Nemendur staðsettir vítt og breitt um landið, eða hvar sem er í heiminum, munu tengjast sem einn hópur í gegnum námið, vinna að einstaklings- og hópverkefnum og staðbundnum rannsóknarverkefnum. Líkt og í staðbundnu námi stendur nemendum til boða námsráðgjöf og stuðningur.

Námið leggur góðan grunn að háskólanámi og störfum á sviðum sem tengjast umhverfismálum og nýtingu og verndun auðlinda. Mikil alþjóðleg nýsköpun og gerjun er að eiga sér stað í þessum málum og bendir allt til þess að aukin þörf verði fyrir fólk með slíka þekkingu á komandi árum.

Allar nánari upplýsingar er að finna á www.fjarmenntaskolinn.is