Fisktækninemar mynd GK
Tuttugu og tveir eru skráðir í fisktækninám í MTR og stunda það af kappi. Námsgreinar á vorönn eru stærðfræði, íslenska og fiskvinnsluvélar. Námið er samstarfsverkefni Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar, Fisktækniskóla Íslands og MTR. Það fer fram á Dalvík en mynd sem fylgir fréttinni var tekin þegar nemendur heimsóttu MTR í síðustu viku.
Fisktækninámið verður kennt á fjórum önnum. Það hófst 6. september 2016 með námskeiði í námstækni og hópefli. Á haustönn voru síðan þrjár aðrar greinar kenndar, upplýsingatækni, íslenska fyrir fólk af erlendum uppruna og HACCAP gæðakerfi. Nemendur voru mismargir í þessum greinum, enda hafa sumir fengið fyrra nám, námskeið og/eða reynslu af fiskvinnslu metna.
Forsagan er sú að á vormánuðum 2016 fór þrjátíu og einn starfsmaður fiskvinnslu Samherja hf. á Dalvík í raunfærnimat. Við matið var miðað við námsskrá Fisktækniskóla Íslands. Í framhaldi af matinu var ákveðið að bjóða þessu fólki uppá nám í fisktækni sem yrði í samstarfi Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar (Símey) sem byði uppá námsgreinar Grunnmenntaskólans, Menntaskólans á Tröllaskaga sem héldi utanum námið, byði upp á faggreinar og útskrifaði nemendur og Fisktækniskóla Íslands, en þaðan kemur námsskrá og ýmis sérfræðiþekking. Verkefnisstjóri fisktækninámsins á Dalvík er Svanfríður Jónasdóttir.