Talsverð eftirspurn er eftir þeirri þekkingu sem orðið hefur til á fjarkennslu og upplýsingatækni í MTR og hafa kennarar skólans tekið þátt í ýmsum samstarfsverkefnum undanfarin ár. Eitt þessara verkefna hlaut á dögunum Evrópuverðlaun fyrir nýsköpun í tungumálakennslu og námi; hin virtu European Language Label 2024 sem hundruð fræðsluverkefna tóku þátt í.
Um er að ræða verkefni þar sem unnið var með aðilum frá þremur skólum í Póllandi að gerð kennsluefnis í ensku til birtingar á netinu og er efnið nú aðgengilegt þar notendum að kostnaðarlausu. Verkefnið stóð síðustu tvö ár og í því veittu fimm kennslukonur frá MTR pólskum kollegum sínum sérfræðiþekkingu í að þróa kennsluhætti og innleiða notkun upplýsingatækni í skólastarfi.
Verkefnið var styrkt af sjóði sem kallast EEA, en hlutverk hans er að efla tengsl Íslands, Noregs og Liechtenstein við ýmis önnur Evrópuríki. Pólsku samstarfsaðilarnir komu tvær ferðir til Ólafsfjarðar og okkar konur endurguldu með tveimur heimsóknum til Katowice í Póllandi þar sem nokkurra daga vinnutörn var í verkefninu hvert sinn. Milli vinnutarna var verkefnið þróað áfram með samstarfi í gegnum netið.Verkefninu lauk með ráðstefnu í Póllandi vorið 2024. Ráðstefnan var opin kennurum sem höfðu áhuga á að kynna sér framgang og afurðir verkefnisins og var hún vel sótt.