Hópmynd
Líkt og við höfum áður sagt frá var óvenju gestkvæmt hjá okkur í skólanum í síðustu viku m.a. var hér nemendahópur frá spænska skólanum IES Andreu Sempere, sem staðsettur er í Alcoy á Alicante, og með þeim tveir kennarar. Hópurinn var hér í nokkra daga og nemendurnir gistu hjá nemendum MTR á meðan á heimsókninni stóð. Báðir skólarnir eru UNESCO skólar og eru í samstarfsverkefni þar sem tilgangurinn er að skoða hvernig skólarnir vinna sem UNESCO skólar, hvað nemendur þeirra geta lært hverjir af öðrum og hvernig verkefni skólarnir geta unnið saman í framtíðinni.
Nemendurnir sem tóku þátt í verkefninu kynntust vel og unnu þétt saman í skólanum. Verkefnavinnan skilaði m.a. af sér hugmyndum um Erasmus verkefni sem fléttar saman staðbundna matarmenningu og matvinnslu í tengslum við sjálfbæra neyslu og framleiðslu, jafnrétti og frið. Auk þess fóru nemendur saman í útivist og íþróttir og spænski hópurinn átti dagstund á Siglufirði þar sem hann skoðaði m.a. Síldarminjasanfið og þótti mikið til koma. Ekki síður þótti þeim mikil upplifun að sjá allan þennan snjó sem verið hefur hér norðanlands undanfarnar vikur og upplifa snjóbyl og óveður. Reyndar fór það svo að veðrið setti strik í reikninginn og stytta þurfti dvölina fyrir norðan um einn dag.
Nemendahópurinn í MTR, sem tók á móti þeim spænska, fylgdi honum svo til Reykjavíkur og reyndar alla leið til Spánar þar sem samstarfið heldur áfram þessa viku. Í höfuðborginni var tekið hús á Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og formaður félagsins, Eva Harðardóttir, ræddi við nemendur um hvernig skólarnir geta unnið meira sín á milli í tengslum við heimsmarkmiðin, en þau eru eitt af fjórum megin þemum UNESCO-skólaverkefnisins sem báðir skólarnir eru hluti af.
Dagskránni lauk svo með heimsókn á Bessastaði þar sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tók á móti hópnum og fræddi hann um sögu Íslands og sögu staðarins meðan hann leiddi hópinn um húsakynnin. Hefur forsetinn tekið á móti nokkrum slíkum hópum frá MTR á síðustu árum og þáði auk þess matarboð í skólanum sem undirbúið var af nemendum MTR ásamt spænskum og ítölskum samstarfsnemendum. Hrósaði hann MTR fyrir að vera skóli þar sem allir geta látið ljós sitt skína og ræddi mikilvægi þess að kynnast öðrum, taka vel á móti erlendu fólki, vera í alþjóðlegu samstarfi og vernda íslenska tungu. Að lokum lagði hann áherslu á það við unga fólkið að nýta kosningarétti sinn, ekki sleppa því að kjósa og láta þannig aðra ákveða fyrir sig. Heimsóknin var sérlega skemmtileg og fræðandi eins og fyrri heimsóknir á Bessastaði og þótti nemendum mikið til hennar koma.
Hér má sjá rafbók sem útbúin var í samstarfsferlinu.
Myndir