Erla Vilhjálmsdóttir er frá Ólafsfirði. Hún útskrifaðist af félags- og hugvísindabraut MTR vorið 2015. Haustið eftir hóf hún nám í félagsfræði við Háskóla Íslands og stundaði samhliða því diplómanám í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum. Vorið 2022 lauk hún diplómanámi í upplýsingafræði á meistarastigi við Háskóla Íslands. Kjörsvið hennar í náminu var upplýsingahegðun þar sem áhersla er lögð á skipulagningu, stjórnun og miðlun upplýsinga og þekkingar. Erla býr í dag í Kópavogi og starfar sem markaðs- og þjónustufulltrúi hjá íslensku innflutnings- og þjónustufyrirtæki og einnig sem þjónustufulltrúi hjá tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu. Við spurðum Erlu hvernig námið í MTR hafi undirbúið hana fyrir háskólanám og hvað sé eftirminnilegast frá skólagöngunni.
Mér fannst ég hafa góðan grunn þegar ég byrjaði fyrsta árið í félagsfræðinni við HÍ. Margt var upprifjun og annað var ég að læra á viðameiri hátt. Sumir áfangar í háskóla taka sér meira pláss en aðrir og er því mikilvægt að hafa góða yfirsýn yfir kennsluáætlanir, álag hverrar viku og skipuleggja sig eftir því. Sjálfstæði og ábyrgð í námi er þá mjög mikilvægt og því vandist ég í MTR.
Ég fann fyrst fyrir smá breytingu þegar leið á þriðju önn háskólans, sem er algengt. Farið er enn dýpra í efnið, aðferðafræðin verður snúnari og umfangsmeiri og valáfangar bætast við svo eitthvað sé nefnt. Það að vera vakandi fyrir því að vinna jafnt og þétt og dreifa álaginu var eitthvað sem ég var vön úr MTR og gagnaðist mér vel á þeim tímapunkti.
Símatið, sem viðhaft er í MTR, vandi mig líka á að skipuleggja tímann minn vel. Ég hafði hugmynd um það hversu mikinn tíma ég þyrfti í tiltekin verkefni, lestur o.s.frv.. Þegar prófatarnir stóðu svo yfir í háskólunum fannst mér ég vel í stakk búin til að skipuleggja yfirferð og upprifjun á fyrri vikum og forgangsraða áherslupunktum eftir því á milli áfanga. Ef eitthvað vantaði upp á í MTR þá væri það líklega að hafa fleiri og þyngri tungumálaáfanga. Það mundi til dæmis hjálpa til við að nýta ítarefni á norrænum tungumálum í áföngum enn betur.
MTR er afar tæknivæddur skóli og það að kunna að læra að miklum hluta á stafrænan máta og viðhalda samskiptum innan þess vettvangs var mikill plús, t.d. þegar aðgengi að kennurum var minna.
Eftirminnilegast úr MTR er vinalegt viðmót kennara og liðlegheit. Þá hafði ég gaman af miðannavikunum sem buðu gjarnan upp á fjölbreytt, skemmtileg námskeið. Sérstaklega stóðu uppúr áfangar hjá Hjördísi Finnboga, félagsfræðikennara með meiru, þá hvað varðar kennsluhætti, fjölbreytta framsetningu efnis og pepp. Að lokum er það svo tækifærið til þess að eiga meiri tíma með fjölskyldunni og vinum í sínum heimabæ á meðan maður stundar nám í frábærum menntaskóla.