Nemendur í Menntaskólanum á Tröllaskaga fylgdust með beinni útsendingu af landsliðsfólki Íslands í dag í skíðagöngu í undankeppni á Heimsmeistaramótinu í Lathi í Finnlandi, en þau eru fimm talsins. Skíðafélag Ólafsfjarðar á tvo fulltrúa á heimsmeistaramótinu og eru það þau Sævar Birgisson og Elsa Guðrún Jónsdóttir sem er nú einnig fyrsta skíðagöngukona Íslands til þess að komast á heimsmeistaramót. Gaman er að segja frá því að þriðji keppandinn er fæddur og uppalinn á Ólafsfirði en hefur keppt síðastliðin ár fyrir skíðafélag Akureyrar og er það Brynjar Leó Kristinsson. Fjórði keppandinn fyrir Íslands hönd í norrænum greinum kemur frá Ísafirði og heitir Albert Jónsson og fimmti keppandinn heitir Snorri Einarsson og ólst hann upp í Noregi en hóf að keppa fyrir Íslands hönd í vetur og hefur hann nú þegar náð lágmarkinu á heimsmeistaramótið, en hann lenti í 2. sæti á FIS-móti í nóvember sem var einnig haldið í Finnlandi. Í dag gengu stúlkurnar 5km og drengirnir 10km.
Elsa Guðrún sigraði með yfirburðum og segir í viðtali við mbl.is að aðalmarkmið hennar hafi verið að ná inn í topp 10 sem var skilyrði til þess að mega taka þátt í öllum göngunum sem framundan eru á mótinu en þessi árangur var vonum framar. Hún kom í mark á tímanum 15:23:90 og kom það í ljós mjög snemma að hún væri að gera mjög góða göngu. Hún var 20 sekúndum á undan næsta keppanda og var alveg í skýjunum með árangurinn. Strákunum gekk ágætlega og vantaði Sævari aðeins 7 sekúndur upp á það að komast í aðalkeppnina en hann hafnaði í 13. sæti. Albert varð í 18. sæti og Brynjar Leó var í 23. sæti en 60 keppendur luku göngunni.
Nemendur hvöttu þau að sjálfsögðu til dáða hinu megin við skjáinn og munu halda áfram að fylgjast með heimsmeistaramótinu í Lathi í Finnlandi. Á morgun er keppt í sprettgöngu, á laugardag í skiptigöngu, þá liðaspretti. Á þriðjudag verður keppt í 10km göngu kvenna með hefðbundinni aðferð og þann 1. mars verður keppt í 15km göngu með hefðbundinni aðferð svo það er á nógu að taka. Við óskum öllum keppendum góðs gengis og sendum baráttukveðjur frá Menntaskólanum á Tröllaskaga.
MYNDIR