Útskrift haust 2016
mynd GK
Sextán stúdentar brautskráðust frá Menntaskólanum á Tröllaskaga í morgun. Sex af náttúrufræðibraut, fjórir af félags- og hugvísindabraut, tveir af íþrótta- og útivistarbraut, einn af listabraut og þrír með viðbótarnám til stúdentsprófs eftir starfsnám. Samtals hefur skólinn nú brautskráð hundrað fjörutíu og einn nemanda
Lára Stefánsdóttir, skólameistari hvatti nýstúdentana til að einbeita sér að því sem þeim þætti skemmtilegast, einhverju sem væri þess virði að vakna til þess á morgnana. Hún sagði að það væri liðin tíð að fólk vissi við útskrift hvað það ætlaði að verða. Lára vék að fjölbreytni námsins og sagði að fjarnemarnir væru undirstaða þess. Ef ekki væri fyrir þá væru nemendur aðeins um eitt hundrað og nám fábreytt. Fjarnemarnir væru því dýrmætir fyrir staðnemana og hefðu gert skólanum kleift að þróa fjölbreytt nám, bæði bóknám og verknám á mismunandi brautum. Um þriðjungur nemenda býr á höfðuborgarsvæðinu og nokkrir í útlöndum, þar á meðal tveir stúdentanna sem útskrifuðust í dag.
Bryndís Erla Róbertsdóttir flutti ávarp nýstúdents. Hún sagði að skólinn væri frábær með fjölbreytt nám í listum, raunvísindum, íþróttum og félagsvísindum. Nemendur fengju smá smakk af öllum möguleikunum í inngangsáföngum. Sumir hefðu uppgötvað leyndan ljósmyndahæfileika í inngangi að listum eða fengið brennandi áhuga á mannfræði í inngangi að félagsvísindum. Bryndís Erla sagði að það væri eins og að hitta vinahópinn eða ættingjana að fara í skólann – aldrei eins og maður væri að fara þangað sem maður neyddist til að mæta bara til að læra eitthvað leiðinlegt. Nemendur og kennarar skólans væru eins og ein stór fjölskylda. Þetta gerði námið skemmtilegra og einfaldara. Hún þakkaði kennurunum sérstaklega fyrir mikla vinnu, hvatningu, þolinmæði og umhyggju sem þeir hefðu sýnt nemendum.
Hjá Jónu Vilhelmínu Héðinsdóttur, aðstoðarskólameistara kom fram að rúmlega þrjú hundruð nemar voru í skólannum á önninninni sem er að ljúka. Tæpur helmingur nemenda er af Tröllaskaga, um þriðjungur býr á höfðuborgarsvæðinu en aðrir annarsstaðar á landinu eða í útlöndum. Forsenda fjölda fjarnema væri að skólinn hefði náð að skapa sér sérstöðu á sviði upplýsingatækni í skólastarfi og fjarkennslu. Á þessari önn bættust við um tveir tugir nemenda í fisktækni á Dalvík. Þá eru sjö nemendur í 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar sem stunduðu nám samhliða í MTR á önninni. Starfsmenn á önninni voru 26. MYNDIR