Eldri borgarar mynd GK
Allt frá stofnun hefur verið lögð áhersla á það í skólanum að vera í góðu sambandi við nærumhverfið. Hefur þetta m.a. verið gert með samstarfi við ýmsa aðila í samfélaginu s.s. íþróttafélög, björgunarsveitir, söfn, fyrirtæki og önnur skólastig og einnig með opnum listsýningum þar sem íbúar eru boðnir velkomnir að njóta.
Í vetur hafa eldri borgarar í Ólafsfirði komið við í skólanum flesta mánudagsmorgna þegar þeir eru á sinni vikulegu hópgöngu. Hafa þessar heimsóknir verið mjög ánægjulegar. Gestirnir hafa þegið kaffi, átt spjall við starfsfólk og nemendur skólans og kynnst skólabragnum. Verður vonandi framhald á þessum heimsóknum næsta vetur.
Í kjölfar þessara heimsókna spratt sú hugmynd að búa til áfanga þar sem nemendur læra að segja eldri borgurum til í tæknimálum, er sú hugmynd í vinnslu og kemur vonandi til framkvæmda fyrr en síðar.